Veiðimynd

Hefðbundinn hraði í lyftum virkar betur til styrktaraukningar en hægur, en ekki víst að vöðvastækkun sé meiri.
Það eru tæplega ný sannindi að vöðvar stækka mest með því að leggja mikið álag á þá í langan tíma. Spennan sem myndast við átök veldur því að amínósýrur fara inn í vöðvafrumurnar sem á endanum veldur stækkun vöðvans. Samkvæmt kenningunni er ekki erfitt að ímynda sér að vöðvarnir stækki meira ef hvert átak sem tekið er á í sé hægt. Í rannsókn sem tók 10 vikur voru tveir hópar kvenna sem æfðu mismunandi að því leiti að annar hópurinn lyfti í öllum endurtekningum á hefðbundnum hraða en hinn hópurinn gerði endurtekningar sem tóku 10 sekúndur hver.

Í styrk bætti hópurinn sem æfði á hefðbundnum hraða sig mun meira eða 34% í bekkpressu á móti 11% hjá hinum. Í öðrum æfingum var niðurstaðan af svipuðum toga. Í niðurtogi bættu þær sig um 27% en hinar 12%, í fótapressu um 33% á móti 7%, fótabekk um 54% á móti 24% og í fótalyftum fyrir aftan um 40% á móti 15%.
Þetta er mikill munur sem sýnir að hefðbundnu aðferðirnar virka vel, en áður en við afskrifum hægu aðferðina er engu að síður nauðsynlegt að skoða niðurstöðuna aðeins nánar. Það að lyfta miklum þyngdum er ekki endilega aðal tilgangur vaxtarræktarmanna heldur það að ná vöðvastækkun. Hefðbundinn hraði í endurtekningum er mjög vel til þess fallinn að þjálfa upp styrk í vöðvum ásamt réttum taugaboðum sem eru nauðsynleg til þess að vöðvinn taki á af snerpu. Til þess að ákvarða hvor aðferðin sé betri til þess að ná vöðvastækkun hefði verið gagnlegra að mæla vöðvastækkunina sjálfa heldur en einungis styrkinn. Hægt er að mæla slíka stækkun með ómtækjum sem taka mynd af vöðvanum. Þessi könnun er engu að síður áhugaverð en svarar í raun ekki því hvor aðferðin sé betri til vöðvastækkunar, einungis því að styrkurinn er meiri.
(J. Strength Cond. Res. 15: 309-314, 2001)