Þær Rannveig Kramer og Guðrún H. Ólafsdóttir eru báðar komnar áfram í sex manna úrslit á Arnold Classic Europe mótinu í Madríd. Þessi árangur þeirra markar nú þegar ákveðin tímamót hjá íslenskum keppendum á alþjóðlegum vettvangi í ljósi þess að allir íslensku keppendurnir fimm komust áfram í úrslit sem fram til þessa hefur þótt góður árangur.Nú ber svo við að þrír íslendingar skipa sér í verðlaunasæti á einu og sama mótinu sem er eitt hið sterkasta sem völ er á í Evrópu.

Kristbjörg Jónasdóttir varð í öðru sæti í gær í módelfitness eftir geysiharða keppni og óháð því hvar þær Rannveig og Guðrún lenda er ljóst að þær eru líka í verðlaunasætum.

Í fyrramálið – sunnudagsmorgun – fara fram úrslit í þeirra flokkum. Af framgöngu dóma í dag er líklegt að þær séu að berjast um toppsæti og ljóst að allt getur gerst.

Íslensku keppendurnir mega nú þegar vera hæstánægðir með þennan árangur.