Nafngiftir keppnisgreina í fitness Byrjað er að keppa í nýrri keppnisgrein í fitness. Á enskunni nefnist hún Bodyfitness og tilkomu hennar má rekja til þess að talið var skorta keppnisgrein þar sem keppendur þyrftu ekki að keppa í danslotu. Viðtökurnar innan IFBB sambandsins hafa verið góðar við þessari nýju grein, ekki einungis hér á landi, heldur einnig erlendis, sem sést á miklum keppendafjölda. Þreifingar hafa verið í gangi varðandi heiti þessarar nýju keppnisgreinar. Orðið fitness er upprunnið úr ensku en hvergi í heiminum hafa hinsvegar verið gerðar tilraunir til að þýða orðið enda álíta menn svo að um heiti sé að ræða. Í krafti smæðar íslensks þjóðfélags ríkir hinsvegar hér á landi sterkari hefð fyrir málvernd en víða annarsstaðar. Þetta hefur leitt til þess að nokkrir fjölmiðlar, sérstaklega Morgunblaðið og Ríkissjónvarpið hafa neitað að nota orðið fitness og nota þess í stað orðið hreysti. Undirrituðum þykir orðið hreysti ekki viðeigandi þar sem það vísar samkvæmt orðabók í það að vera hraustur, heilbrigði, hraustleiki, þegar líkamshreysti er annars vegar og hefur því frekar tilvísun í heilsu en útlit og íþróttamannslegan vöxt. Í ljósi þess að hvergi í heiminum kalla menn þessa keppnisgrein annað en fitness hefur undirrituðum þótt óviðeigandi að gera svo hér á landi. Keppnisgreinar eins og tennis, júdó, karate og golf, hafa ekki þurft að líða fyrir það að heita erlendum nöfnum. Einn er þó sá galli á orðinu fitness að í því eru tvö s, sem gerir það erfitt í beygingum nema notuð séu þrjú s í sumum tilfellum eins og verslunin Fitnesssport gerir. Til aðgreiningar hinni nýju keppnisgrein í fitness og hinnar hefðbundnu þykir hinsvegar full ástæða til að taka upp þá venju að kalla bodyfitness, formfitness og hina hefðbundnu, íþróttafitness. Orðið form, vísar sterklega til þess hvað það er sem dómarar eru að leita að. Ekki eru gerðar jafn miklar kröfur til skurða í formfitness eins og í hinni hefðbundnu keppnisgrein, heldur er frekar verið að leita að útlínum, öðru nafni formi. Eins og stundum hefur gerst í þessum keppnisgeira eru aðrir mótshaldarar duglegir að notfæra sér það sem er að gerast hjá IFBB hér á landi og er þegar komin fram önnur keppnisgrein sem nefna á kroppurinn og er greinilega vísað þar til formfitness en ekki þykir undirrituðum slík nafngift gefa íþrótt til kynna eins og raunin er. Formfitness er keppnisgrein sem fyllilega flokkast undir íþrótt þar sem útlit keppenda næst ekki nema með ástundun íþrótta. Orðið íþróttafitness þykir vel við hæfi fyrir hina hefðbundnu fitnessgrein þar sem keppendur fara þar í gegnum hindranabraut, gera danslotu og keppa í stökum æfingum  sem ekki er gert í formfitness. Umboðsaðilar IFBB hyggjast því nota orðin formfitness og íþróttafitness í framtíðinni, til aðgreiningar þessara keppnisgreina.