Undanfarin 50 ár hafa allir sem koma að heilbrigðismálum lagt að fólki að draga úr saltneyslu. Sama hver fræðingurinn er, allir eru sammála um að afar mikilvægt sé að draga úr saltneyslunni þar sem of hár blóðþrýstingur, kransæðasjúkdómar og hjartabilun er alvarlegt vandamál. Saltið spilar þar stórt hlutverk. Bandaríska Sjúkdómavarnastofnunin CDC bendir á að fólk sé einfaldlega ekki að ná þessu með saltið. Þeir sem eru komnir yfir fimmtugt, eru með nýrnasjúkdóm, sykursýki eða of háan blóðþrýsting ættu sérstaklega að varast saltið. 1500 mg er hámark á dag (eitt og hálft gramm). Yfirgnæfandi meirihluti, eða 98% í áðurnefndum hópum er hinsvegar ekki að fara eftir þessum leiðbeiningum. Því miður er það þannig að fólk fær megnið af saltinu sem það borðar í gegnum unninn mat en ekki endilega úr saltstauknum. Það er því nauðsynlegt að lesa utan á umbúðir til að vita hversu mikið salt er í matnum. Vandamálið er að mikið af unninni kjötvöru er ekki sérlega vel merkt hvað þetta varðar.

(Morbidity and Mortality Weekly Report 60: 1413-1417, 2011)