Anabolískir sterar auka vöðvamassa, styrk og frammistöðu í íþróttum. Æfingar auka verulega á áhrif stera og því sjá íþróttamenn oft ótrúlegar framfarir þegar saman fer steranotkun og skipulagðar æfingar.

Vísindamenn hafa verið að velta fyrir sér því hvort sterar séu ávanabindandi eins og ýmis eiturlyf eða hvort það sé eitthvað annað sem ræður ásókn í stera. Þeir sem byrja að nota stera virðast oft eiga erfitt með að hætta neyslunni. Spurningin sem kemur upp í hugann er hvort það séu sterarnir sjálfir sem eru ávanabindandi eða hvort það sé árangurinn? Íþróttamaður sem hefur vanist ákveðnum árangri samhliða steraneyslu á hugsanlega erfitt með að sætta sig við að glata árangrinum og forystunni í sinni grein.
 
Ítalskir vísindamenn endurskoðuðu nýlega ýmsar rannsóknir sem ætlað var að varpa ljósi á það hvort sterar væru ávanabindandi. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að ekki væru til rannsóknir sem styrkja þær grunsemdir að svo sé þegar um meðferðarskammta væri að ræða. Það væru hinsvegar líkur á að íþróttamenn yrðu háðir árangri en ekki endilega sterunum sem slíkum. Þeir bentu á að það fælist hinsvegar ákveðin hætta í steranotkun vegna undirliggjandi hvatningar til þess að nota þá til langs tíma. Vitað er að steranotkun getur valdið ýmsum alvarlegum aukaverkunum jafnvel þó þeir séu notaðir í skamman tíma, en hættan felst í því að sá sem byrjar að nota stera er líklegur til þess að gera það lengi. Steranotkunin sjálf dregur úr og jafnvel slekkur á eðlilegri testosterónframleiðslu líkamans. Steraneytandinn er því að skipta á eðlilegri framleiðslu líkamans á testósteróni og inntöku þess í töflu eða sprautuformi. Aukaverkanir á borð við getuleysi þegar neyslunni er hætt geta komið fram og líklegt er að taka verði stóra skammta til þess að ná miklum árangri. Skammta sem eru mun stærri en áðurnefndir „meðferðarskammtar“. Þegar neyslunni er hætt gerbreytast allar forsendur í líkamanum. Hann léttist og vöðvar koðna niður eins og blaðra sem lofti er hleypt úr. Þetta sjáum við gerast hjá ýmsum íþróttamönnum. Gjarnan eru vaxtarræktar- og kraftlyftingamenn nefndir fyrstir til sögunnar hjá blaðamönnum sem hafa einfalda sýn á lífið og vilja ekki trúa því að fótboltastjarnan þeirra taki lyf eða stera. Raunin er hinsvegar sú að lyf og sterar geta aukið árangur í öllum íþróttagreinum. Skotfimi, borðtennis, sund, handbolti, fótbolti, spretthlaup og langhlaup. Allt eru þetta íþróttagreinar þar sem samkeppnin ræður ríkjum og miklir peningar geta verið í boði fyrir þá sem eru bestir. Íþróttamennirnir eiga því mikla hagsmuni falda í því að halda forystunni og þar með lífsviðurværinu. Stera- eða lyfjanotkunin hjálpar tvímælalaust óháð því hver íþróttagreinin er. Fjölmargir íþróttamenn sem hætta keppni eftir farsælan feril sem byggst hefur á steranotkun virðast hinsvegar ekki vera í miklum vandræðum með að hætta steraneyslunni þegar keppnisferlinum líkur. Meintur steraneyslu-ávani er því líklega fólginn í löngun í að vera í fremstu röð í sinni íþróttagrein.
Listinn yfir aukaverkanir af steranotkun er langur og ófagur og er efni í mun lengri grein en þetta greinarkorn sem fyrst og fremst beinir sjónum að því hvort þeir séu ávanabindandi. Málið er ekki svo einfalt að þeir séu hættulausir þó þeir séu ekki sannanlega ávanabindandi.
 
(Internal Emergency Medicine, 4: 286-296, 2009)