Mótefnakerfið er afar mikilvægt fyrir þá sem ætla sér að byggja upp styrkleika. Flensa eða lasleiki geta stoppað menn algerlega af í æfingum. Það fer eftir því hversu erfiðar æfingarnar eru hvort þær styrki eða veiki mótefnakerfi líkamans þegar lasleiki er annars vegar. Hóflegar æfingar geta flýtt fyrir því að líkaminn jafni sig en ef æft er mikið er hætt við að ástandið verði verra en ella og líkaminn gæti orðið varnarlausari gagnvart sjúkdómum.

En ættirðu að æfa þegar þú ert lasinn? Það er hægt að æfa með vægt kvef eða minniháttar slappleika, en ef þú færð hita ættirðu að slaka á. Æfingar myndu gera ástandið verra og gætu jafnvel verið hættulegar.  Ef um vírus er að ræða gæti hann sest að í hjartanu og valdið bólgum sem eru lífshættulegar. Reglan ætti að vera sú að æfa ekki ef þú ert með hita. Einnig er ágæt regla að hvíla sig aukalega í jafn marga daga og veikindin stóðu. Ef þú færð t.d. flensu sem stendur í fimm daga, ættirðu að sleppa æfingum í fimm daga eftir að þér fer að líða betur.