Keppendurnir sem héldu utan á Heimsmeistaramót IFBB í fitness um síðustu helgi voru að koma til landsins í dag. Fjórir keppendur héldu utan og komust þrír ekki í 15 manna úrslit. Una Dóra Þorbjörnsdóttir hafnaði hinsvegar í 15 sæti í sínum flokki sem í voru 16 keppendur. Keppnin var haldin í Santa Susanna á Spáni og var sú fjölmennasta frá upphafi. Alls kepptu 108 keppendur eingöngu í fitness, auk keppenda í vaxtarrækt kvenna. Með vaxtarræktarkeppendunum voru rúmlega 200 keppendur frá 40 löndum og vakti athygli erlendis að með tilkomu vinsælda formfitness sem keppnisgreinar væri að verða til ein fjölmennasta keppnisíþrótt kvenna. Þær Sólveig Thelma Einarsdóttir og Sif Garðarsdóttir kepptu í formfitnessflokki undir 164 cm hæð. Í þeim flokki voru 32 keppendur og af þeim komust 15 áfram í úrslit. Jöfnuður var meðal keppenda og er óhætt að segja að efstu 25 keppendurnir hafi verið mjög svipaðir. Ekki er erfitt að ímynda sér að litlu hafi munað að þær kæmust í 15 manna úrslit, en fór sem fór.Heiðrún Sigurðardóttir keppti í undir 167 cm flokki í fitness en komst eins og þær Sólveig og Sif ekki í 15 manna úrslit. Í hennar flokki voru 22 keppendur sem allir voru mjög góðir. Íslensku keppendurnir voru þrátt fyrir allt mjög sáttir við árangurinn, enda verður að hafa í huga að enginn hægðaleikur er að komast inn í baráttuna um efstu sætin þegar sigurvegarar frá fjölda landa eru annars vegar. Birtar verða ljósmyndir frá keppninni í myndabanka fitness.is innan skamms.