Umræðan hér á landi um steranotkun og notkun ólöglegra efna í íþróttum er að mörgu leiti á steinaldarstigi miðað við það sem átt hefur sér stað erlendis. Frá yfirvöldum heyrist helst yfirborðskenndur hræðsluáróður um rúsínueistu og konur með karlmannsraddir. Tvö önnur atriði einkenna umræðuna hér á landi. Annað er það að steranotkun ku nánast einungis að finna meðal kraftagreina og í vaxtarrækt en aðrar íþróttagreinar eru hvítþvegnar af ósómanum. Hitt einkenni umræðunnar er að bætiefni og sterar eru gjarnan nefnd í sömu setningu. Landlæknir og sumir næringarfræðingar af gamla skólanum lýsa því reglulega yfir að fólk hafi ekkert með bætiefni að gera og eigi að halda sig við fjölbreytt mataræði og taka Lýsi. Ekki skal við Lýsinu amast hérna þar sem það getur ekki flokkast nema sem ágætis bætiefni. Næringarfræðingar af gamla skólanum ítreka að almenningur hafi ekkert með bætiefni að gera. Í því sambandi er til fróðleiks nefnt hér að 34% allra íslendinga á aldrinum 15-29 ára eiga kort í æfingastöð og 28% þeirra sem eru á aldrinum 15-75 ára eiga kort í æfingastöð samkvæmt könnun.4 Megnið af þessu fólki er að stunda líkamsrækt og vill ná árangri. Skilgreiningin “almenningur” á því ekki við um þennan stóra hóp en hjá honum má ætla að bróðurparturinn af neyslu bætiefna fari fram.

Alið á misskilningi
Hitt er að með því að nefna bætiefni og stera í sömu setningu er verið að ala á misskilningi meðal almennings. Algengustu bætiefnin sem fólk kaupir í dag eru í formi prótínmáltíða sem einnig innihalda algengustu vítamín. Uppistaðan í sölu bætiefna hér á landi samanstendur af þessum prótínríku bætiefnum. Bætiefni kallast þau vegna þess að þeim er “bætt” við hefðbundið fæði. Ennfremur er til fjöldi vinsælla bætiefna eins og td. Kreatín sem selst í verulegu magni hér á landi. Kreatín er að finna í kjöti og fiski þó í mun minni mæli en hægt er að fá í bætiefnum. Helsta ástæðan fyrir vinsældum kreatíns er sú að enginn efast um virkni þess eftir ítarlegar rannsóknir og almennur líkamsræktariðkandi sem stundað hefur æfingar um skeið finnur fljótt mun á styrk eftir neyslu þess. Hraðvaxandi vinsældir bætiefna má að vissu leiti rekja til þessa áþreifanlega árangurs.
Aukningu í neyslu bætiefna meðal almennings hér á landi má ekki einungis rekja til gríðarlegrar ásóknar almennings í líkamsræktarstöðvar landsins þar sem við eigum eflaust heimsmet eins og á fleiri sviðum, heldur einnig til þeirrar staðreyndar að vísindalegar rannsóknir hafa stuðlað að framleiðslu á sífellt betri bætiefnum sem skila árangri í líkamsrækt.  Fólk sem stundar líkamsrækt marga daga í viku vill eðlilega stuðla að fljótari árangri með því að borða hollt mataræði og taka bætiefni því til viðbótar sem hjálpa þeim að ná þeim markmiðum sem ætlunin er að ná. Þróunin í offitu landans hefur ekki bent til annars en að öll lögleg hjálparmeðul séu vel þegin.

Grunur leikur á að andstaða lyfjafyrirtækja og heilbrigðiskerfisins megi rekja til þess að ekki er hægt að fá einkaleyfi á þessum bætiefnum og baráttan um t.d. brennsluefni fyrir offitugeirann líkist helst gullæðinu í árdaga. Sá sem kemur til með að markaðssetja lyf sem virkar í fitubrennslu hefur uppgötvað endalausa gullæð. Hið opinbera hefur ávallt haft horn í síðu þeirra sem vilja leyfa almenningi að vera sjálfbjarga með ýmis náttúruleg efni og þeim þykir allt óþolandi sem ekki er lyfseðilsskylt.

Bakari hengdur fyrir smið
Það að nefna bætiefni og stera í sömu setningu er eins og að hengja bakara fyrir smið. Sterar eru lyf og það að tengja bætiefnaneyslu við steraneyslu ruglar almenning í ríminu. Helsta ástæðan fyrir því að bætiefni hafa komist inn í sömu umræðu og sterarnir er sú að gerðar hafa verið rannsóknir á bætiefnum sem hafa sýnt fram á að í bætiefnum sumra framleiðenda (14,8%)3  hafa greinst forhormón nandrolons og testosterons. Nánar um það síðar í greininni en í stuttu máli eru engin slík bætiefni til sölu hér á landi nema ef til vill á svörtum markaði eins og reyndar mörg önnur efni sem við gætum verið án og eru ólögleg.

Íþróttamenn sem falla á lyfjaprófum nota bætiefni sem afsökun
Fyrstu viðbrögð íþróttamanna sem falla á lyfjaprófi eru þó hlálegt sé yfirleitt á sama veg. Byrjað er á að lýsa yfir sakleysi og því haldið fram að einhver “sjálfskipaður næringarsérfræðingur” eða þjálfari hafi látið viðkomandi hafa bætiefni. Síðan taka við frekari mótbárur hjá íþróttamanninum sem gjarnan birtast í fjölmiðlum, málum er gjarnan áfríað en að lokum þarf íþróttamaðurinn að taka út sína refsingu. Það er ekki tekið gilt að bera við eigin fávisku.

Hvers vegna eru íþróttamenn að falla á nandrolone? Algengara gerist að bætiefnum sé kennt um, enda reyna íþróttamenn sem falla að grípa öll hálmstrá sem eru innan seilingar. Það sem styður þeirra rök er að gerðar hafa verið rannsóknir sem sýna fram á að sum bætiefni innihalda svokölluð forhormón sem valda því að menn greinast jákvæðir á lyfjaprófum. Hinsvegar eru engin slík bætiefni til sölu hér á landi.
Sér til varnar hafa íþróttamenn sem hafa fallið á nandrolone á lyfjaprófi sagt að lítið vit hefði verið í að taka það inn þar sem til séu mun betri efni fyrir þá sem keppa í þolgreinum og spretthlaupum. Þannig vilja þeir halda því fram að það hafi verið í bætiefnum sem þeir hafi tekið í góðri trú. Vissulega er þetta rétt og gæti bent til að inntakan hafi veri ómeðvituð. Hitt er að hugsanlega er þetta einmitt ástæðan fyrir því að þeir tóku efnið. Nandrolone stuðlar að vöðvavexti og vöðvar geyma glykogen, þannig skiptir engu máli hver íþróttagreinin er. Ef hún græðir á auknu þoli, súrefnisflutningi eða styrk, getur íþróttamaðurinn náð framförum með töku þess ef það fer saman við rétta þjálfun og æfingar. Líklegra þykir að þeir hafi tekið Deca Durabolin sem er annað heiti þessa efnis. Það hefur verið vinsælt hérlendis ekki síst fyrir það að androgenísk (neikvæð) áhrif þess eru lítil á móti miklum anabólískum áhrifum. Auðvelt er hinsvegar að finna það á lyfjaprófi.

Rannsóknir á ólöglegum efnum í bætiefnum
Gerð var rannsókn á innihaldi forhormóna og ólöglegra efna í bætiefnum sem seld voru á almennum markaði á tímabilinu október 2000 til nóvember 2001. Rannsóknin sem styrkt var af Alþjóða Ólympíunefndinni var framkvæmd undir eftirliti Dr. Wilhelm Schanzer sem starfar við Cologne rannsóknarstofuna í Þýskalandi sem er ein virtasta rannsóknarstofan á sínu sviði.
Keypt voru 634 bætiefni frá 215 framleiðendum í 13 löndum (578 voru keypt í verslunum, 52 á Internetinu og 2 pöntuð í síma). Af þessum 634 sýnishornum innihéldu 94 (14,8%) forhormón sem ekki var sagt frá á umbúðunum. Þessi bætiefni voru skilgreind sem “jákvæð”. Ekki var hægt að fá niðurstöður úr 66 tilfellum (10,4%) vegna víxlverkandi áhrifa. Af þeim sem reyndust jákvæð reyndust 24,5% innihalda forhormón bæði nandrolóns og testosteróns, 68,1% innihéldu forhormón testósteróns og 7,5% innihéldu forhormón nandrolóns. Ekkert tilfelli reyndist innihalda forhormón boldenóns.
Í þeim 13 löndum sem sýnishornin voru keypt reyndust flest vera keypt í Hollandi, eða 25,8%. Austurríki seldi 22,7%, Bandaríkin og Bretland reyndust bæði selja 18,8%.
Flest bætiefnin sem prófuð voru komu frá Bandaríkjunum, eða 240, en af þeim reyndust 45 jákvæð. Í Hollandi voru prófuð 31 bætiefni og reyndust 8 jákvæð. Fjöldi prófana segir því meira en hlutfallið. Öll jákvæðu bætiefnin reyndust upprunnin frá einungis fimm löndum. Þau voru Bandaríkin, Holland, Bretland, Ítalía og Þýskaland. Í þessari rannsókn var ekki birtur listi yfir nöfn framleiðenda. Hinsvegar hefur í annarri rannsókn verið birtur listi yfir framleiðendur.
Hér á landi er ekki vitað til þess að nein af þessum jákvæðu bætiefnum hafi verið til sölu hér á landi og þó þessi bætiefni séu lögleg í sumum nágrannalöndum hefur Lyfjaeftirlitið ekki leyft sölu þeirra hér á landi.

Spaugilega hliðin
Það spaugilega er að engar rannsóknir staðfesta að þessi forhormón sem markaðssett hafa verið sem nokkurskonar staðgenglar stera virki. Ekkert bendir til að forhormón auki testosterónmagn í heilbrigðum einstaklingum. Fleiri heimildir benda til þess að Androstenedione sem er eitt vinsælasta forhormónið auki frekar estrogen heldur en testosterón. Enn fleiri rannsóknir benda til að forhormónin auki ekki vöðvamassa né styrk við æfingar.6 Í ýmsum ritum erlendis er gagnrýnt á báða bóga að þeir sem halda fram gagnsemi forhormóna hafi skapað eftirsókn eftir þeim sem byggð er á fölskum forsendum og þeir sem tala gegn þeim með því að benda á stórkostlega skaðsemi þeirra séu í raun að gefa óþarfa orðstý þeirra undir fótinn. Hitt sem er það spaugilegasta er að vitað er með vissu að menn falla á lyfjaprófi eftir töku þeirra. 

Bætiefni sem innihalda ólögleg efni
Erfitt er að gera lista yfir bætiefni sem hafa reynst jákvæð sökum þess að þeir eru fljótir að úreldast. Íþróttamenn sem eiga á hættu að þurfa að fara í lyfjapróf geta einungis verið vissir í sinni sök ef þeir kaupa bætiefni á opinberum markaði hjá bætiefnaframleiðendum hérlendis. Óhætt er að fullyrða að ekkert bætiefni sem selt er í verslunum hér á landi hafi reynst innihalda þessi forhormón. Ef svo er hefur það farið framhjá greinarhöfundi. Einn framleiðandi hér á landi hefur birt myndir af “jákvæðum” bætiefnum í auglýsingum ásamt öðrum bætiefnum sem eru lögleg en þau eru ekki til sölu. Sumir framleiðendur eins og EAS hafa lýst því yfir að ekkert af þeirra bætiefnum innihaldi ólögleg efni og þrátt fyrir að efedrín sé enn leyfilegt í sumum fylkjum Bandaríkjana hefur EAS hætt framleiðslu þess. 
Bætiefni sem innihalda eftirfarandi efni ætti að forðast. Enn skal á það minnt að listi sem þessi er fljótur að úreldast þar sem framleiðsla breytist ár frá ári.
Dehydroepiandrostenedione (DHEA)
Androstenedione
Androstenediol
4-Androstenediol
5-Androstenediol
19-Norandrostenedione

Vörur sem geta valdið því að nandrolone finnist í lyfjaprófi eru eftirfarandi: 1
Innihald: Digydroepiandrostendione (DHEA)
Vara: Twinlab 7-Ketofuel, Twinlab Growth Fuel, Twinlab DHEA Fuel, Twinlab Tribulus Fuel stack, Olympian Labs DHEA, MuscleTech Anotesten
Innihald: Androstenedione
Vörur: Champion Androstendione, MuscleTech Anotesten, MuscleTech Nortestin, Cytodyne Androdyne, Olympian Labs Androstene Power, Twinlab 7-Ketofuel
Innihald: Androstenediol
Vörur: ASN Maxabol, GEN Cyclodex 4-Adiol, MuscleTech Acetabol ANII, MuscleTech Anotesten, Cytodyne Tech Androdyne



Steranotkun
Líkamlegar aukaverkanir

– Krabbamein
– Lifrarskemmdir
– Kvenleg áhrif á karla (Vöxtur brjóstvefs)
– Karlmansleg áhrif á konur (dýpkun raddar, aukinn hárvöxtur)
– Stækkun sníps
– Minkandi eistu
– Risvandamál
– Hjartasjúkdómar
– AIDS (vegna nálaskipta)
– Minnkandi sáðfrumufjöldi
– Ófrjósemi
– Skalli
– Sársauki við þvaglát
– Stækkun blöðruhálskirtils
– Minnkandi brjóst kvenna
– Tíðarhringur hættir
– Stöðvun beinvaxtar í unglingum

Þetta er einungis hluti aukaverkana sem rekja má til steranotkunar. Engu að síður tekur fjöldi fólks stera í heiminum í dag. Aukaverkanirnar láta yfirleitt ekki á sér bera til að byrja með en með aukinni og langtíma notkun er líklegt að ein eða fleiri aukaverkun komi fram. Enn er verið að uppgötva fleiri aukverkanir sem eitt og sér er næg ástæða til að sleppa steranotkun. Sterar eru oft notaðir í lækningaskyni, en það er þegar skammtar eru óhóflegir og notkunin er yfir langan tíma sem aukaverkanir geta komið fram.



Andlegar aukaverkanir steranotkunar
– Óstjórnleg reiði (vegna of mikils testosteronemagns)
– Persónuleikabreytingar
– Pirringur
– Þunglyndi
– Skapsveiflur
– Andlegur ávani

Í seinni tíð hafa menn vakið athygli á andlegum aukaverkunum stera. Persónuleikabreytingar eru sérlega áberandi og bræðisköst. Hjá SÁÁ hafa menn í auknum mæli þurft að takast á við afleiðingar steraneyslu og á heimasíðu þeirra er því lýst þannig: “Þeir sjúklingar sem misnota anabóla stera skera sig úr sjúklingahópnum. Í fyrsta lagi eru þessir ungu menn meiri misnotendur ólöglegra vímuefna en gengur og gerist meðal annarra sjúklinga okkar á sama aldri. Einnig er ljóst að þessi hópur er bráðari í hugsun og verkum, stundum árásargjarnari og framkvæma oft hlutina áður en þeir eru búnir að hugsa þá til enda, stundum með alvarlegum afleiðingum. Margir verða mjög fastir í steraneyslunni, má jafnvel tala um fíkn, þó ekki sé hér raunverulegt vímuefni á ferðinni. Það er þó athyglisvert, að menn fara í fráhvörf eftir langvarandi steranotkun, svefntruflanir, hjartsláttur, þunglyndishugsanir ofl., allt fráhvarfseinkenni sem eru vel þekkt eftir misnotkun vímuefna.” 5
Magn testósteróns í líkama notenda getur orðið það mikið að það valdi ekki einungis þeim sjálfum hættu,  heldur öðrum líka. Steranotendur hafa sýnt tilhneygingu til að vilja slást að ástæðulausu, ráðast á fjölskyldumeðlimi og ofbeldisverk má rekja til steranotkunar. Erlendis benda gögn til þess að morð- og sjálfsmorð séu algengari meðal steranotenda. Þessar aukaverkanir valda mönnum einna stærstu áhyggjunum þar sem áhrifin ná ekki lengur bara til notandans, heldur einnig þeirra sem í kringum hann eru.

Heimildir:
1. http://www.active.com/print.cfm?category=Soccer&story_id=7081
2. http://www.sports-drugs.com/asp/ss_features8.asp
3. http://www.cafdis-antidoping.net/documents/attachments/C028A66EFFB04D0893A77A78D0ED6296.pdf
4.
https://www.fitness.is/modules.php?op=modload&name=News&file=article&sid=106
5. http://www.saa.is/fraedsluefni/afleidingar/steraneysla
6. M.D. Mars. 2003. 144-152.