Í janúar á þessu ári var tilkynnt um hert átak í lyfjaeftirliti hjá IFBB (International Federation of Bodybuilders). Átakið felst fyrst og fremst í aukinni hörku gagnvart landssamböndum sem fara ekki að reglum IFBB um lyfjaeftirlit. Takmarkið með þessari auknu hörku er að útrýma jákvæðum niðurstöðum lyfjaprófa í vaxtarræktar- og fitnessmótum erlendis sem og á landmótum. Landssambönd sem tryggja ekki að að keppendur þeirra séu að keppa án misnotkunar lyfja geta átt von á sektum og tímabundinni brottvísun úr IFBB. Þessi aukna harka byrjaði strax að skila árangri á þessu ári þar sem enginn féll á lyfjaprófi á þessu ári á fjórum stórmótum. Hinsvegar féllu þrír egyptar og einn tyrki á Miðjarðarhafsmóti sem haldið var 11. júní. Þetta er ágætur árangur þar sem mikið áfall reið yfir IFBB á síðasta ári þegar fimm vaxtarræktarkonur féllu á Evrópumótinu á Spáni og ellefu karlar á Heimsmeistaramótinu en í ár féll enginn. Öll lyfjapróf hjá IFBB eru framkvæmd samkvæmt reglum Alþjóða Ólympíusambandsins. Hér á landi hafa sigurvegarar í fitnesskeppnum IFBB og þeir sem sendir hafa verið erlendis verið lyfjaprófaðir síðastliðin tvö ár og á næsta Íslandsmóti IFBB í fitness er fyrirhugað að lyfjaprófa alla sem ná verðlaunasæti í keppninni. Lyfjaeftirlit í fitnesskeppnum IFBB hér á landi verður því tvímælalaust það strangasta sem þekkist í íþróttageiranum á Íslandi. Sem betur fer hefur enginn fallið á lyfjaprófi í fitness fram til þessa og vonandi verður svo áfram. Í samtali við Sigurð Gestsson einn umboðsmann IFBB kom fram að mikill þrýstingur hefur komið fram frá mörgum keppendum í fitness um að herða lyfjaeftirlit. Ímynd íþróttagreinarinnar er í veði og því til mikils að vinna.