Vöðvavirkni byggist á að styttast eða herpast saman. Vöðvasamdráttur skapar þannig ákveðna hreyfingu. Í flestum tilfellum er ekki hægt að breyta átaki á vöðva þannig að álag verði mismikið á ákveðin svæði í vöðvanum. Þetta er ein ástæða þess að flestir þjálfarar mæla með stóru æfingunum sem reyna á stærstu vöðvahópana. Er hér átt við hnébeygju og réttstöðulyftu svo eitthvað sé nefnt.

Hinsvegar er hægt að hafa breytileg áhrif á vöðva sem hafa óreglulega lögun. Brjóstvöðvinn og trappinn eru dæmi um slíka vöðva. Hægt er að hafa breytileg áhrif á ákveðna hluta þessara vöðva með ákveðnum æfingum sem beita þeim á annan hátt en venjulegar æfingar. Dæmi um slíkar æfingar eru liggjandi kóbra og liggjandi róður. Þær hafa meiri áhrif á neðri-hluta trappans en sitjandi niðurtog í vél og framhallandi sitjandi róður. Liggjandi kóbra byggist á að liggja á maganum, hendur með síðum og fetta efri hluta líkamans upp og afturábak. Liggjandi róður er oft tekinn á bolta eða bekk þar sem legið er á maganum á bekknum eða boltanum og róið með léttum handlóðum. Þessar æfingar hafa meiri áhrif á neðri hluta trappans heldur en niðurtog og framhallandi róður samkvæmt mælingum í vöðvarafrita. Vöðvarafritar mæla virkni vöðva í átökum og geta sagt nákvæmlega til um það hvar átak reynir mest á vöðva.

(Journal Electromyography Kinesology, 21: 403-410, 2011)