wakame_tariBrúnn wakame-þari inniheldur efni sem kallast Fucoxanthin (FX) sem hamlar fitufrumuvexti og stuðlar að nýtingu fitu til brennslu. Vísindamenn frá Kóreu og Úkraínu sem endurskoðuðu rannsóknir á þessu sviði bentu nýlega á að flestar rannsóknir á virkni FX hafi verið gerðar á músum en engar stórar rannsóknir hafa verið gerðar á mönnum. Rannsóknir á dýrum hafa bent til að FX dragi úr heildarfitu og sérstaklega kviðfitu. FX hefur sömuleiðis jákvæð áhrif á blóðsykurstjórnun, fitusöfnun í lifur og blóðfitu. Rannsóknir hafa sýnt að FX eykur virkni brúnu fitunnar og stuðlar þannig að orkueyðslu. Þrátt fyrir að ekki hafi verið gerðar rannsóknir á mönnum hljóma þessar rannsóknarniðurstöður mjög vel og ekki skemmir fyrir að brúnn þari er náttúrulegur og ekki er vitað til þess að hann innihaldi varasöm eiturefni.
(Nutrition, Metabolism & Cardiovascular Diseases, vefútgáfa 3. júní 2015)