Vöðvar stækka til þess að sporna við vöðvaskemmdum sem þeir verða við þegar æfingar eru gerðar. Ef æfingarnar eru fisléttar nærðu engum árangri í vöðvastækkun þar sem álagið er lítið, engar vöðvaskemmdir eiga sér stað og óþarfi er fyrir vöðvana að bregðast við. Það hljómar svolítið undarlega að orða það þannig að tilgangur lóðaæfinga sé að valda vöðvaskemmdum til þess að vöðar stækki. Í raunveruleikanum er þetta hinsvegar það sem er að gerast í grófum dráttum. Vöðvar bregðast við álaginu í æfingunum með því að reyna að stækka til þess að þola álagið. Of miklar skemmdir myndu flokkast undir ofþjálfun og eru því óæskilegar. Ofþjálfun eykur ekki framfarir og lengir þann tíma sem vöðvarnir þurfa til þess að jafna sig eftir átök.

Hér í öðru greinakorni var skrifað um það að heildarbrennsla líkamans í æfingum væri í samræmi við heildarálagið. Það sama virðist eiga við um vöðvaskemmdir. Heildarálag æfinga er mælikvarði á skemmdir vöðva. Vísindamenn frá Brasilíu og Bandaríkjunum rannsökuðu áhrif mismunandi æfingaálags á vöðvaskemmdir og birtu niðurstöður sínar nýlega. Hvíld á milli lota hafði lítið að segja samkvæmt niðurstöðum þeirra. Aðferðin sem þeir notuðu til þess að meta vöðvaskemmdirnar var að mæla kreatín-kínasa og ensímið laktat-dehýdrógenasa. Þessi tvö fyrirbæri gefa til kynna hversu miklum skemmdum vöðvi hefur orðið fyrir og gefa okkur þannig ákveðinn mælikvarða á vöðvavirkni – í þessu tilfelli skemmdir. Það fylgdi með í vangaveltum vísindamannana um rannsóknina að ekki væri vitað hversu miklar skemmdir á vöðva eftir æfingar væru æskilegastar til þess að ná sem mestum árangri. Um það er deilt og verður það eflaust í nánustu framtíð. Ætla má að það sé mjög persónubundið hversu miklar skemmdir vöðvar þola og því erfitt að negla niður eitthvað sem gæti heitið ráðlagður–vöðvaskemmda-dagskammtur. Hver og einn verður fram að því að finna hversu mikið álag hann getur lagt á vöðva líkamans án þess að það flokkist undir ofþjálfun.

(Journal Strength and Conditioning Research, 25: 1339-1345, 2011)