MyndViðtal við Sigurbjörn Guðmundsson

Honum er margt til lista lagt honum Sigurbirni Guðmundssyni, íslandsmeistara IFBB í fitness. Sigurbjörn sem ættaður er frá Borgarnesi hefur búið þar stærsta hluta ævi sinnar en hann hefur einnig búið á Akranesi og nýverið flutti hann til Akureyrar þar sem hann starfar sem einkaþjálfari í Vaxtarræktinni.

Sigurbjörn sem er 21 árs býr þar ásamt kærustu sinni Rakel Björk Gunnarsdóttur sem stundar nám í Háskólanum á Akureyri en sjálfur er hann í flugnámi og stefnir á að fara í atvinnuflugnámið næsta haust.

Í vor varð Sigurbjörn Íslandsmeistari í fitness eftir að tveir keppendur féllu á lyfjaprófi eins og frægt er orðið. Aðspurður um það hvernig honum hafi orðið um það þegar hann fékk Íslandsmeistaratitilinn í kjölfar þess að þessir tveir keppendur féllu á lyfjaprófi sagði Sigurbjörn: “Ég vissi ekki hvort ég átti að vera ánægður eða reiður með að vinna á þennan hátt. Til lengri tíma litið er þetta ágætt mál, en maður hefði viljað eiga sigurstundina á sínum tíma. Ég var ánægður með minn árangur á mótinu. Fyrir mótið var ég að stefna efstu sætin, en það kom mér á óvart að þeir skildu falla á lyfjaprófunum og ég hafði ekki ímyndað mér að lyfjanotkun væri algeng í þessari íþróttagrein. Maður er hinsvegar alltaf að heyra meira og meira af því að lyfjanotkun sé algeng í mörgum íþróttagreinum, en vonandi er þetta á undanhaldi.

Sigurbjörn hefur getið sér gott orð sem einkaþjálfari og ku hafa yfirborðsmikla þekkingu á því sem varðar mataræði, enda hefur hann sjálfur mikla reynslu af því í gegnum fitnesskeppnirnar. Að sögn Sigurbjörns er hann þessa dagana að stefna á Bikarmeistaramótið í fitness sem haldið verður í Austurbæjarbíói 16. nóvember. “Ég er núna að klára lokaverkefni hjá ISSA einkaþjálfaraskólanum og reikna með að klára það um áramót. Ég hef alla tíð lesið mikið um mataræði eftir að ég byrjaði að lyfta og fylgist mjög vel með í blöðum og á vefnum með öllu sem tilheyrir þessum geira. Nauðsynlegt er að fylgjast vel með öllum rannsóknum þegar ætlunin er að stunda keppni. Fyrir bikarmótið er ég að fara eftir nýju kerfi í samstarfi við EAS bætiefnafyrirtækið og til stendur að kynna á vefnum hvernig það virkar. Þetta kerfi er tvískipt. Fyrst kemur sex vikna mataræði fyrir uppbyggingu samhliða niðurskurði og síðan taka við fjórar vikur sem miða að því að ná fram sem mestum vöðvaþroska. Því er haldið fram að þetta kerfi geti byggt upp vöðvamassa um leið og skorið er niður. Það sem af er finnst mér vel hafa tekist til og einnig finnst mér að andlega sé maður betur stemmdur vegna þess að ég þarf ekki að æfa jafn oft og áður. Ég æfi níu sinnum í viku núna en ekki tvisvar á dag eins og sumir gera. Grundvallaratriðið í þessu kerfi er að auka prótínneyslu og tímasetja kolvetnaneysluna rétt. Ég er búinn að vera eina viku í seinni hluta kerfisins og ætla að vera á því fram að bikarmótinu.