Dóra Sif Egilsdóttir
Dóra Sif Egilsdóttir. Ljósmyndari: Brynjar Ágústsson, portrett.is

Dóra Sif Egilsdóttir sigraði sinn flokk í módelfitness á Íslandsmótinu í fitness um páskana. Kærastinn hennar, Þorlákur Sigurbjörn Sigurjónsson sem keppti í fitness sigraði einnig sinn flokk en að þessu sinni var Dóra beðin um að segja lesendum Fitnessfrétta frá sér.

Ég heiti Dóra Sif Egilsdóttir og er 23 ára gömul. Ég og Þorlákur Sigurbjörn Sigurjónsson kærastinn minn búum í Kópavogi ásamt syni okkar Sigurjóni Andra (sem verður tveggja ára í júlí) og Bósa hundinum okkar.  Ég útskrifaðist af íþróttabraut úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og fór síðan í íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík 2012 en tók mér pásu þegar ég varð ólétt, en stefni á að halda áfram með námið næsta haust. Ég vinn á leikskólanum Rjúpnahæð og hef unnið þar síðastliðin 6 ár.

Ég og Þorlákur erum búin að vera saman í 9 ár og lífið okkar snýst meira og minna um heilsu og líkamsrækt. Við höfum bæði gríðarlegan áhuga á þessu sporti og við styðjum hvort annað og erum við mjög samstíga.
Við stunduðum bæði handbolta frá barnsaldri en höfum nú lagt skóna á hilluna og tekið upp skýlu og bikiní í staðinn. Við erum mjög miklar keppnismanneskjur og við viljum ná langt í því sem við tökum okkur fyrir hendur.

Hvernig hefur gengið að samhæfa æfingar við vinnu og/eða nám?

Þar sem við erum bæði í niðurskurði, í fullu starfi og með ungabarn þurfum við að vera mjög skipulögð, það hefur gengið ótrúlega vel en við fáum líka góðan stuðning frá fjölskyldum okkar. Vikurnar og dagarnir fyrir mót eru þétt skipaðir af æfingum og þar sem næringin skiptir öllu máli fer mikill tími í að undirbúa máltíðirnar fyrir daginn. Ég fer með matartöskuna í vinnuna en ég útbý máltíðirnar daginn áður.

Hvernig ertu búin að æfa síðastliðið ár?

Ég hef æft mjög stíft síðastliðið ár og reyni að hafa æfingarnar eins fjölbreyttar og ég mögulega get. Ég lyfti 5-6 sinnum í viku en síðastliðið í haust ákvað ég að byrja á morgunæfingum og byrjaði að stunda fitnessbox í Hnefaleikastöðinni ásamt lyftingum seinnipart dags. Ég geri mikið af HIIT (High Intensity Interval Training) bæði á brennsluæfingum og lyftingaæfingum. Reyni að keyra púlsinn upp á milli setta. Ég byrjaði í niðurskurði 12 vikum fyrir mót og æfði 11 sinnum í viku fram að móti.

Hvað hefur þér þótt erfiðast við undirbúningin fyrir mót?

Mér hefur yfirleitt fundist andlegi þátturinn taka mest á fyrir mót því maður setur oft svo mikla pressu á sjálfan sig. Það er líka mjög erfitt að hafa ekki nógan tíma fyrir fjölskyldu og vini en maður neyðist til að kúpla sig út úr félagslífinu því það eru einfaldlega ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum. Að fara í gegnum undirbúning með jákvæðu hugarfari og hafa trú á sjálfum sér skiptir öllu máli. Ég hef aldrei verið jafn vel stemmd andlega og ég var fyrir Íslandsmótið en ég var með fulla trú á því að ég myndi ná þeim markmiðum sem ég hafði sett mér og það skilaði sér svo sannarlega.

Hvað er það sem fær þig til að vilja stíga á svið?

Frá því að ég eignaðist Sigurjón Andra var ég staðráðin í því að koma mér í mitt besta form sem fyrst og hefja keppni á ný. Ég er mjög metnaðarfull í því sem ég tek mér fyrir hendur og ég var staðráðin í að komast á pall í módelfitness. Ég hafði áður keppt í unglingafitnessinu en þar sem ég rýrnaði töluvert eftir að ég átti strákinn ákvað ég að slá til og prófa eitthvað nýtt. Keppnisdagurinn er alltaf einstakur og öll vinnan verður þessi virði við það eitt að stíga á svið. Það skemmtilegasta við fitness er að maður getur alltaf bætt sig og maður er alltaf að stefna hærra sem gerir þetta allt svo skemmtilegt.