hlaupariFæra má rök fyrir því að þolið hafi gert mannkyninu kleift að drottna yfir jörðinni. Maðurinn getur ekki hlaupið jafn hratt og ljón eða sýnt jafn hröð viðbrögð og snákur en við getum hinsvegar hlaupið klukkustundum og jafnvel dögum saman og eigum því þolinu að þakka að komast undan ógnandi dýrategundum. Því miður eiga sumir erfitt með að teygja sig í fjarstýringuna á sjónvarpinu í dag og hreyfingaleysi er vaxandi vandamál. Hitt er annað mál að arfberarnir eru enn til staðar. Við erum enn með sömu arfbera og fyrir árþúsundum.
Fjöldi rannsókna hafa sýnt að þeir sem eru í líkamlega góðu formi lifa lengur og við betri lífsgæði en þeir sem eru ekki í formi á efri árum. Þol og styrkur skipta þar miklu máli fyrir lífsgæði, enda horfa menn í auknum mæli til lífsgæða. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og því er ekki hægt að leggja að jöfnu að lifa löngu lífi við heilsuleysi eða hreysti. Æfingar hafa mikil áhrif á arfbera sem tengjast hvatberum í orkubúskap frumna. Æfingar hafa líka jákvæð áhrif á ónæmiskerfið, frumuendurnýjun, orkunotkun og bólgur.
Lyfjafyrirtæki hafa í auknum mæli lagt mikla áherslu á að finna og greina þá þætti sem hafa áhrif á það sem varðar betri lífsgæði og reyna að framleiða lyf sem herma eftir þessum jákvæðu áhrifum. Það er hinsvegar ekki líklegt að lyfjafyrirtækjum takist í bráð að koma hinum jákvæðu áhrifum þol- og styrktaræfinga í töfluform. Það að skreppa í ræktina virkar mun betur en töflur og stuðlar að lengra, heilbrigðara og hamingjusamara lífi.
(British Journal Pharmacology, 170: 1153-1166, 2013)