iStock_000009824077XSmallInnan líkamans er það sitthvort kerfið sem fer í gang þegar líkaminn reynir að aðlagast þolþjálfun annars vegar og styrktarþjálfun hinsvegar. Flestar rannsóknir hafa sýnt að þegar þjálfunaraðferðum er blandað saman verður ákveðin röskun á aðlögunarferli líkamans. Vöðvar stækka sem viðbrögð við miklu álagi í kjölfar lyftingaæfinga og hjarta- og lungnakerfið reynir að aðlagast miklu álagi þegar þol er annars vegar. Þetta fer ekki alltaf saman.
Mikil vöðvaátök sem eiga sér stað þegar tekið er á lóðum stuðla að auknum styrk og vöðvavexti en langvarandi hlaup eða hjólreiðar undir miðlungsálagi efla hvatberana í frumum líkamans. Hvatberarnir eru einskonar orkustöðvar innan frumnana sem gegna mikilvægu hlutverki í líkamanum, m.a. að efla þol. Æfing á reiðhjóli setur í gang lífeðlisfræðilegt ferli sem eykur vöðvaþol en dregur um leið úr því ferli sem ætlað er að byggja upp vöðva. Hið öfuga gerist þegar lyftingar eru annars vegar. Þegar æfðar eru lyftingar og þolæfingar með skömmu millibili dregur úr þjálfunargildi beggja, til dæmis þegar þolæfingar eru teknar skömmu á eftir lyftingaæfingu.
Sænsk rannsókn hefur hinsvegar sýnt fram á að 45 mínútna þolæfingar á dag í bland við fótabekk fyrir framan (4 lotur og 7 endurtekningar) hafði ekki raskandi áhrif á nýmyndun vöðva þrátt fyrir hraustlegar þolæfingar. Það var hinsvegar óþjálfað fólk sem tók þátt í rannsókninni. Almennt virðist fólk taka best við sér í æfingum þegar þolæfingar og styrktaræfingar eru teknar sitthvorn daginn eða í það minnsta með löngu millibili sama daginn. Þessi vitneskja skiptir miklu máli fyrir líkamsræktarfólk og íþróttamenn sem ætla sér að ná sem mestum árangri.
(Journal Strength Conditioning Research, 28: 154-160, 2014)