Ertu að verða gráhærð/ur af áhyggjum? Til eru mörg dæmi um að fólk hafi orðið gráhært nánast á einni nóttu vegna skyndilegs álags. Rannsókn sem gerð var við Miðstöð Krabbameinsrannsókna við Kanazawa háskólann í Japan bendir til þess að streita skemmi gen sem hafa það hlutverk að stjórna litfrumum.

Litfrumurnar framleiða melanín, en það ákvarðar litinn á hári og hörundi. Stofnfrumur sem stjórna vexti og viðhaldi litfrumnana deyja smátt og smátt ef streita er viðvarandi. Reyndar virðist geta okkar til að framleiða melanín dala með aldrinum. Þannig verða gráu hárin til og þannig eru líka til tvær leiðir til þess að fá ekki grá hár. Önnur er sú að lifa sem munkur í helli fjarri allri menningu og streitu alla ævi. Hin leiðin er að fara reglulega á hárgreiðslustofu og láta lita gráu hárin.

(Cell, 137: 1088-1099, 2009)