Sigurður Gestsson situr fyrir svörum

Ýmsar spurningar heyrast í æfingastöðinni og mun Sigurður Gestsson leitast við að svara þeim sem berast. Lesendur geta sent Sigurði fyrirspurnir á netfangið fimi@est.is. Þess má geta að Sigurður er 12 faldur íslandsmeistari í vaxtarrækt og fáir íslendingar hafa stundað kennslu og þjálfun í líkamsrækt lengur en hann.

Eru færri hitaeiningar í olíu en smjörlíki?

Ég hef oft rekið mig á það að fólk sem ætlar að létta sig segist hætt að nota smjörlíki við steikingu og noti einungis olíu og haldi að þar með sé málinu bjargað. Svo er þó alls ekki. Það er jafn mikið af hitaeiningum í olíu og smjörlíki. Eini munurinn er sá að í smjörlíki er meira af mettaðri fitu og kólesteróli, en reyndar breytist olían í mettaða fitu þegar hún er hituð. Þá hættir hún að vera fljótandi.

Hvort á að æfa á háum eða lágum púls þegar brenna á fitu?

Staðreyndin er sú að við erum ekkert öðruvísi en vélar. Þegar við erfiðum meira notum við meiri orku. Það er fráleitt að hugsa þetta þannig að líkaminn hætti að brenna fitu og fari að brenna eingöngu kolvetnum eftir að ákveðnum púlsi er náð. Vissulega eru kolvetni skyndiforði líkamans til orku, en þegar fólk er farið að fara sér hægar í æfingum og er hreinlega hrætt við að það sé ekki að brenna fitu þegar það æfir af krafti, þá er áherslan orðin of mikil á smáatriði sem skiptir litlu sem engu máli. Æfingar skila sér alltaf í fitubrennslu þó skyndiátök skili sér í meiri kolvetnabrennslu heldur en fitubrennslu. Hafa verður í huga að sú umframorka sem líkaminn býr yfir breytist í fitu sé hún ekki notuð. Svarið er: takið æfingarnar af meiri krafti og þá fjúka fleiri hitaeiningar.

Virka fitubrennsluefni?

Fæst af þeim efnum sem eru á markaðnum virka eins og sagt er að þau geri. Hvers vegna er þá allur þessi fjöldi efna á markaðnum? Fyrir því eru aðallega tvær ástæður. Í fyrsta lagi er gífurlegt fjármagn í gangi á þessum markaði og nóg er til af fólki sem lætur ginnast af auglýsingaskruminu. Tökum sem dæmi efnið Xencal sem hefur verið kynnt undanfarið. Það fæst aðeins gegn lyfseðli og á að virka þannig að 30% af fitu sem neytt er fari ómelt í gegnum meltingarveginn. Skoðum málið aðeins dýpra. Í leiðbeiningum með efninu stendur að fæðan sem við neytum eigi að innihalda 30% fitu. Ekkert er sagt um hlutföll kolvetna og próteins en eðlilegt væri að vera með 60% kolvetni og 10% prótein. Ef við búum til máltíð sem inniheldur 500 hitaeiningar í þessum orkuhlutföllum er fróðlegt að skoða hvaða áhrif Xencal ætti að hafa á þessa máltíð. Það virkar ekkert á kolvetnin og próteinið sem innihalda samanlagt 350 hitaeiningar, en það ætti að hleypa 50 af 150 hitaeiningum úr fitunni ómeltum í gegn. Þannig fara 50 hitaeiningar af þessum 500 framhjá meltingarveginum. Þetta gerist að því tilskyldu að það virki eins og til er ætlast þó full ástæða sé til að efast um það miðað við allt sem á undan er gengið í þessum fitubrennsluefnum. Virknin er greinilega algerlega háð samsetningu fæðunnar og þess vegna mæli ég með að minnka fituneysluna frekar um 10%. Það hefur engar aukaverkanir nema ef til vill þær að menn léttist. Hugsanlega aukaverkun af Xencal eru nefnilega niðurgangur. Hafa verður í huga að Xencal virkar ekki á fituforða líkamans sem fyrir er, heldur einungis á þá fitu sem neytt er.

Konur lyftið af krafti

Algengt er að konur hafi áhyggjur af því að fá of mikinn vöðvamassa ef þær lyfta lóðum. Þetta fæ ég að heyra í hverri viku frá konum. Það sem gerist er að þegar fólk stundar ekki líkamsrækt er að vöðvarnir rýrna og flestir fitna. Það þýðir að vöxturinn aflagast og brennslan minnkar vegna vöðvarýrnunar. Besta ráðið til þess að viðhalda og styrkja vöðva líkamans er að lyfta af krafti 2-4 sinnum í viku. Konur þurfa ekki að óttast að fá stóra vöðva þó þær lyfti, einfaldlega vegna þess að líkamsstarfssemi þeirra gefur ekki kost á því undir venjulegum kringumstæðum. En með svolítilli vöðvaaukningu, ca 10%, eykst grunnorkuþörfin um 120 hitaeiningar á sólarhring. Heildarbrennslan eykst síðan mun meira en það vegna þess að stærri vöðvar nota meiri orku. Ekki má gleyma því að vöðvarnir eru aðal brennsluofnar líkamans.