Svonefnd segulómskoðun er mikið notuð í heilbrigðisgeiranum enda frábær tækni sem gerir læknum beinlínis mögulegt að sjá inn í líkamann. Hægt er t.d. að greina hvort liðamót, vöðvar, bein eða sinar séu eðlileg. Skurðlæknar nota margir segulómskoðun til greininga fyrir aðgerðir til staðfestingar á þeim meinum sem eiga í hlut. Einn slíkur er James Andrews sem býr í Florida í Bandaríkjunum en hann heldur því fram að segulómskoðanir séu ofnotaðar og geti gefið villandi upplýsingar. Hann segulómskoðaði 31 körfuboltamann sem voru allir með heilbrigðar axlir og höfðu engin einkenni sem bentu til þess að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. Samkvæmt segulómskoðun virtust hins vegar 90% vera með óeðlilega brjóskmyndun í öxlum og 87% virtust vera með skemmda axlaliði. Andrews bendir á að þrátt fyrir að segulómskoðunartæknin sé frábær megi hún ekki koma í stað nákvæmrar læknisskoðunar sem tekur tillit til einkenna og sjúkdómssögu. Ef treyst er um of á segulómskoðanir er líklegt að farið sé út í óþarfa skurðaðgerðir með tilheyrandi kostnaði og sársauka fyrir alla aðila.

(New York Times, 29. Október 2011)