Þegar tekið er á með lóðum finnst mörgum sem þeir hafi ekki náð góðri æfingu nema þeir hafi fengið svokallaða pumptilfinningu í vöðvana sem lýsir sér í notalegri en þó brennandi tilfinningu í þeim vöðvum sem verið er að æfa.

Slíkt framleiðir mikið af endorfíni, hinu náttúrulega ópíum líkamans eins og það er kallað sem gefur mikla vellíðunartilfinningu.

Ný rannsókn bendir til þess að ekki sé endilega samhengi á milli árangurs og þess að fá pumptilfinningu. Sagt er frá því í Penn State Sports Læknabréfinu að pumptilfinningin segi ekki til um stækkun vöðvans né styrktaraukningu. Íþróttamenn sem æfa með lóðum finna yfirleitt fyrir pumpinu þegar þeir æfa margar endurtekningar eða mörg þung sett með stuttum hvíldartíma á milli.

Ekki er vitað nákvæmlega hvers vegna pumptilfinningin gefur þessa hitatilfinningu en talið er að nokkur atriði komi til greina: breyting á blóðrás, mjólkursýrumyndun í vöðvanum, uppsöfnun efna og/eða hitabreytingar.