Gunnar Ársæll ÁrsælssonÞegar skorið er niður fyrir fitness- eða vaxtarræktarkeppnir er eitt helsta vandamálið að varðveita vöðvamassann. Fáar hitaeiningar í niðurskurði gera það að verkum að erfiðara er fyrir líkamann að halda í vöðvamassann þar sem færri hitaeiningar þýða minna magn af prótíni í mataræðinu. Líkaminn notar prótín í auknum mæli sem orku og fer þannig á vissan hátt að nærast á sjálfum sér. Einn helsti tilgangur þess að taka prótín í formi fæðubótarefna í niðurskurði er að lágmarka vöðvarýrnunina í niðurskurðinum. Prótín í fæðunni hjálpar sömuleiðis líkamanum að halda áfram nýmyndun vöðva þó vöðvauppbygging geti aldrei verið umtalsverð í niðurskurði. Amy Hector og Stuart Phillips og félagar við McMaster háskólann í Kanada gerðu rannsókn á 35-65 ára konum og körlum sem borðuðu 750 hitaeiningum minna en vanalega. Þeim var skipt upp í hópa sem annað hvort fengu sojaaprótín eða mysuprótín. Mysuprótínið kom vel út þegar geta líkamans til nýmyndunar vöðva var mæld í niðurskurði.
(Journal Nutrition, vefútgáfa 17 september 2014)