Mikið hefur verið rætt og ritað um MSG sem stendur fyrir Monosodium Glutamate. Þetta krydd er salt glútamat amínosýrunnar. Algengt er að MSG sé notað sem bragðefni í mat, sérstaklega í austurlenskri matargerð. Undanfarin ár hefur MSG fengið neikvæða umfjöllun í kjölfar rannsókna sem hafa bendlað þetta krydd við ýmsa neikvæða þætti. Rannsóknir hafa sýnt fram á að MSG valdi doða, náladofa, vöðvaslappleika, brjóstsviða, höfuðverk, slappleika og óhóflegum svita svo eitthvað sé nefnt. Áðurnefndar rannsóknir hafa ekki þótt standast þær vísindalegu kröfur sem gerðar eru til rannsókna og því er þetta efni afar umdeilt. Stofnanir á borð við Fæðuöryggisnefnd Evrópusambandsins og FDA í Bandaríkjununum hafa ekki séð ástæðu til að álykta annað en að óhætt sé að nota MSG í matargerð.

Hugsanlegt er þó að MSG stuðli að offitu samkvæmt rannsókn sem nýlega var kynnt við Háskólann í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Rannsóknin athugaði tengsl MSG neyslu og offitu í Kína með því að bera saman neysluna við líkamsfitustuðulinn (BMI) sem mælir hlutfall fitu út frá hæð. Talið er að MSG trufli boð um saðningar- og hungurboð með áhrifum á leptin hormónið. Hitt er annað mál að hugsanlegt er að þeir sem þegar eru orðnir spikfeitir borði meira magn en aðrir af kínverskum mat sem aftur á móti hefur ekkert með MSG neyslu að gera. Þessi rannsókn segir okkur því kannski ekki meira en það að þeir sem eru feitir borði meira af MSG. Hugsanlega hefur það ekkert með MSG að gera – frekar þá staðreynd að feitir borða meira en grannir, þar á meðal MSG kryddaðan mat.

Satt að segja eru rannsóknir það misvísandi varðandi hollustu eða ekki hollustu MSG að lítið er hægt að segja um þetta efni fyrr en frekari rannsóknir hafa verið gerðar á því.

(American Journal of Clinical Nutrition, 93: 1328-1336, 2011)