Það hefur þegar verið sannað að fólk sem er í líkamlega góðu formi er í lítilli hættu á því að deyja úr hjartaáfalli. Nú hefur hinsvegar ný rannsókn sýnt fram á að þeir sem eru í góðu formi eru einnig í minni áhættu af að deyja óháð orsök miðað við þá sem eru í lélegu líkamlegu formi. Dr. Jari Laukkanen og félagar í Finnlandi rannsökuðu rúmlega 1300 karla sem voru 50 ára og eldri í tíu ár. Enginn þeirra var með hjarta- eða lungnasjúkdóm og þrek þeirra var mælt í upphafi rannsóknarinnar. Þeir sem voru í besta líkamlega forminu voru líklegastir til að vera lifandi þegar rannsókninni lauk tíu árum síðar. Lélegt form er áhættuþáttur sem eykur líkurnar á ótímabærum dauða og er að því leiti jafn afdrifaríkur áhættuþáttur og reykingar, hár blóðþrýstingur, offita og sykursýki. 
(Arch. Int. Med. 161: 825-831, 2001)