Talið er að um 18.000 manns látist á hverju ári í Bandaríkjunum vegna ofnotkunar á ýmsum verkjalyfjum. Lætur nærri að tveir einstaklingar látist og 40 þurfi að fara á bráðamóttöku sjúkrahúsa hverja einustu klukkustund vegna misnotkunar verkjalyfja. Lyfin sem helst eru misnotuð og eru bendluð við þessa óheillavænlegu þróun eru OxyContin, Dilaudid og Vicodine. Fleiri mætti þó nefna til sögunnar. Yfirvöld hafa reynt að sporna við þessari þróun og ríkisstjórn Obama forseta hefur sett á fót eftirlitskerfi sem ætlað er að takmarka hina útbreiddu og óolöglegu notkun þessara lyfja. Ætlunin er að ná því takmarki að minnka misnotkun um heil 15%.

Verkjalyfjum er ætlað að bæta lífsgæði fólks og því er ekki einfalt mál að taka á vandanum. Fólk sem þjáist af krónískum bak- og hálsverkjum, gigt og ýmsum öðrum sjúkdómum þarf nauðsynlega á þessum lyfjum að halda. Talið er að flestir sem misnoti lyfin fái þau hjá vinum eða ættingjum, svíki þau út með einhverjum hætti eða einfaldlega steli þeim.

(USA Today, 26. Apríl 2011)