Ætla má að kenna megi pítsum einum og sér um ófá aukakílóin á íslenskum ungmennum. Þrátt fyrir þennan grun er ekki auðvelt að finna upplýsingar um hitaeininga eða fituinnihald. Líklega vill enginn birta tölur yfir hitaeiningar þar sem slíkt flokkast undir óþægilegar staðreyndir. Það jaðrar við landráð að taka pítsur til svona nákvæmrar skoðunar, en þar sem Fitnessfréttir bera ekki hag pítsubakara sérstaklega fyrir brjósti er ætlunin að birta hér hitaeiningafjöldann í þessum vinsæla skyndibita. Vinsæll veitingastaður – ónefndur – var svo vinsamlegur að leyfa skoðun á nákvæmri uppskrift að þremur algengum 12 tommu pítzum. Tekið skal fram að hér er fjallað um 12 tommu pítsur en ekki 16 tommu. Sumir sporðrenna léttilega 16 tommu pítsu á einu kvöldi. Þeir ættu ekki að lesa þessa grein.

Allar pítsurnar í dæmunum sem hér er fjallað um eru um 580gr á þyngd sem þýðir að Americana er með um 191 hitaeiningu í 100 g og Verona 180 hitaeiningar í 100g. Pítsur eru bakaðar úr hvítu hveiti og eru uppfullar af svokölluðum tómum hitaeiningum. Í þeim er lítið af vítamínum sem vert er að tala um. Einhverra hluta vegna hættir mönnum til að borða mikið þegar pítsa eru á boðstólnum. Margir pítsustaðir bjóða samhliða upp á franskar kartöflur og aðra skyndibita og bjóða einnig tilboð á gosi með pítsunum. Á heildina litið er um svakalega hitaeiningaveislu að ræða sem á eflaust stóran þátt í þeim offitufaraldri sem herjar á okkur íslendingana. Sá sem stundar pítsustaði hefur engan rétt til að vera undrandi á aukakílóunum. Engan skal undra að eldur sé heitur.

Pepperoni 12”
Magn    Hráefni    He/100gr
60 g    Pepperoni    252
200 g    Pizzudeig    544
95 g    Pizzusósa    48
30 g    Paprika    8
40 g    Sveppir    12
35 g    Risa laukur    13
100 g    Ostablanda    300
 Alls:    1182he

Americana 12”
Magn    Hráefni    He/100gr
200 g    Pizzudeig    544
95 g    Pizzusósa    48
70 g    Nautahakk    180
35 g    Paprika    9
30 g    Risa laukur    11
50 g    Sveppir    16
100 g    Ostablanda    300
    Alls:    1108he

Verona 12”
Magn    Hráefni    He/100gr
200 g    Pizzudeig    544
95 g    Pizzusósa    48
100 g    Ostablanda    300
60 g    Pizzuskinka    118
30 g    Paprika    8
40 g    Sveppir    12
35 g    Risa laukur    13
Alls:    1043he