Meat (20)Það hefur líklega ekki farið framhjá mörgum að svonefndir lágkolvetna megrunarkúrar (lágkolvetnafæði – Ketó) hafa fengið mikla umfjöllun hér á landi undanfarið. Spurningin er því hvort hér sé um lokalausnina að ræða í megrunarkúrum eða hvort enn og aftur sé sama megrunarkúrnum pakkað í nýjar umbúðir undir nýju nafni. Vinsældir megrunarkúra sem byggjast á því að draga sérstaklega úr kolvetnum í mataræðinu hafa skotið upp kollinum af og til síðastliðin 30 ár. Sá frægasti í þeirri deild er eflaust Atkinskúrinn sem í stuttu máli byggðist á að borða lágt hlutfall af kolvetnum. Robert Atkins sem megrunarkúrinn er kenndur við féll frá árið 2003 en þrátt fyrir að enn sé ein og ein megrunarkúrabók gefin út um Atkinskúrinn færist í vöxt að hinar ýmsu útgáfur af megrunarkúrum sem byggjast á lágu hlutfalli kolvetna gagnvart hinum tveimur orkuefnunum komi fram á sjónarsviðið undir öðrum nöfnum, allt eftir því hver býr að baki bókinni eða kenningunni.

Bandarísku Næringarsamtökin (ADA) gáfu út yfirlýsingu árið 2003 um að „það væri ekki til ein galdralausn á hollu mataræði til léttingar.“ Samtökin styðja kolvetnaríkt mataræði sem bandaríska Vísindaakademían mælir með. Á þeim bæ benda vísindamennirnir á að „hitaeiningar valda þyngdaraukningu. Umframhitaeiningar sem koma úr kolvetnum eru ekki meira fitandi en hitaeiningar úr öðrum orkugjöfum. Þrátt fyrir fullyrðingar þeirra sem aðhyllast lágkolvetnamataræði er það ekki þannig að kolvetnaríkt mataræði ýti undir fitusöfnun vegna aukins insúlínviðnáms.“

Sænska Ráðgjafaráðið í Heilbrigðisvísindum (SBU) endurskoðaði 16,000 rannsóknir og komst að þeirri niðurstöðu að lágkolvetnakúrar séu áhrifaríkari til léttingar en lágfitukúrar þegar til skamms tíma er litið og eiga þá við sex mánuði eða minna. Hinsvegar benti vísindaráðið á að þegar horft væri til lengri tíma (12-24 mánaða) væri ekki hægt að sjá neinn mun á léttingu á milli matarkúra sem byggjast á því að draga úr kolvetnum eða fitu eða kúrum sem auka prótíninnihald, Miðjarðarhafsmataræði né mataræði sem legði sérstaka áherslu á lágt glýsemíugildi.

Þegar upp er staðið er helsta ástæðan fyrir því að menn léttast að lágkolvetnakúrum sú að hvatvísi í mataræði minnkar. Menn hætta að borða á hlaupum og við það dregur úr heildarneyslu hitaeininga.

Umræðan um kolvetni í fjölmiðlum hefur svolítið litast af einstrengingslegu viðhorfi gagnvart þessu nauðsynlega orkuefni og þá um leið svolitlum skorti á innsýn í það hvað kolvetni eru. Orkuefni líkamans eru fyrst og fremst kolvetni, fita og prótín. Það eru fjórar hitaeiningar í grammi af kolvetnum og prótíni en níu hitaeiningar í grammi af fitu. Það er hægt að þvæla fram og aftur og deila um hvort ráðleggingar hins opinbera um hlutföllin þarna á milli séu hin einu réttu. Þegar upp er staðið er aðalatriðið það að heildarfjöldi hitaeininga sem koma úr þessum orkuefnum, sama hvað þau heita, ráða því til lengri tíma hvort við fitnum eða ekki.

Megrunarkúrar eins og lágkolvetnakúrinn eiga tilvist sína að þakka fólki sem nennir ekki að lesa næringarefnatöflur.

Næringarefnatöflur eiga að vera til á öllum heimilum. Með því að átta sig á orkuinnihaldi fæðunnar er hægt að horfa framhjá aukaatriðunum – hvaðan orkan kemur en sjá hinsvegar hve mikil hún er. Megrunarkúrar eins og lágkolvetnakúrinn, Atkinskúrinn, Danski kúrinn eða hvað þetta heitir allt saman eiga tilvist sína að þakka fólki sem nennir ekki að lesa næringarefnatöflur. Ekki missa sjónar á aðalatriðinu. Ef þú vilt léttast skaltu borða færri hitaeiningar en þú brennir. Létting snýst um orku inn og orku út. Hollusta og næringargildi mismunandi fæðutegunda eða orkuefna er síðan allt annað mál. Þó að þú þurfir ekki endilega að telja hitaeiningar á hverjum degi ættirðu hinsvegar að fletta upp í næringarefnatöflu eða lesa utan á umbúðir til þess að átta þig á hitaeiningainnihaldi mismunandi fæðutegunda. Þegar þú áttar þig á orkuinnihaldinu áttarðu þig um leið á ruglinu í öllum þessum megrunarkúrum.

(Vísindavefurinn og Wikipedia 2014)