Sukkuladi001Já, ég ætla að tala illa um súkkulaði þannig að þið sem borðið reglulega þetta vinsæla þunglyndismeðal skuluð hætta að lesa hérna. Engin fæðutegund eða drykkur er í raun fitandi. Það er magnið sem er fitandi. Oft er hinsvegar talað um að hin eða þessi fæðutegund sé fitandi vegna þess að hún sé svo orkurík. Súkkulaði er mjög orkuríkt enda eru 526 hitaeiningar í 100 grömmum. Súkkulaðistykkin sem við verslum úti í búð eru mismunandi þung, en gjarnan á bilinu 50  100 gr. Ekki er undarlegt þó menn fyllist orku af að innbyrða súkkulaði.

Dæmi af súkkulaðielskandi konu

Kona sem er á milli 60  70 kg og hreyfir sig frekar lítið er líklega að brenna um 1800 hitaeiningum yfir daginn. Miðað við þetta skáldaða dæmi mun konan semsagt léttast ef hún borðar færri en 1800 hitaeiningar á dag en þyngjast ef hún borðar fleiri en 1800 hitaeiningar á dag svo málið sé einfaldað eins og hægt er. Þessi umrædda kona sem brennir eins og áður sagði 1800 hitaeiningum á dag má ekki borða mikið af súkkulaði til að fitna. Ef hún fær sér eina kók í dós með t.d. Nóa Síríus súkkulaði er hún strax komin í 668 hitaeiningar. Venjulegur kóladrykkur inniheldur 43 hitaeiningar í 100 g. Í einni 33 cl dós eru því 142 hitaeiningar. Hún má sem sagt borða 1132 hitaeiningar í viðbót þann daginn án þess að fitna. Með þessari máltíð er hún búinn að borða þriðjung af því sem hún má borða þann daginn án þess að fitna. Með þessu litla dæmi er auðvelt að sjá hvers vegna sum (flest) okkar fitna. Þetta er sorgleg staðreynd, en engu að síður verður ekki horft framhjá því að það er afar auðvelt að eyða hitaeiningakvóta dagsins í vitleysu.

Tómar hitaeiningar og næringarríkar hitaeiningar

Einföldum málið. Ef þess kona borðar alltaf 1800 hitaeiningar á dag fitnar hún ekki. Hvaðan þessar hitaeiningar koma skiptir akkurat ekki nokkru einasta máli. Hvort hún borðar fituríkan mat, eintóman sykur (kolvetni) eða grænmeti skiptir ekki máli fyrir þyngingu eða léttingu svo lengi sem orkan í fæðunni fer ekki yfir 1800 hitaeiningar. Hitaeiningafjöldinn er það sem ræður því hvort hún fitnar eða ekki. Hinsvegar til að flækja málið ögn… þá skiptir semsagt líka máli hvað er í matnum af næringarefnum. Næringarefnin hafa í raun ekkert með hitaeiningar að gera og lítið um léttingu en næringarefnin segja hinsvegar til um það hversu hollur maturinn er. Gallinn við súkkulaðistykkið og kókið sem konan í dæminu hér að ofan var að borða er sá að í þeim eru svokallaðar tómar hitaeiningar. Tómar vegna þess að í súkkulaðinu og kókinu eru nánast engin vítamín eða steinefni sem gagnast líkamanum til viðhalds og heilbrigðis. Líkaminn þarf á fjölda vítamína og steinefna að halda til þess að vera heilbrigður og ef fæðan sem við borðum inniheldur einungis hitaeiningar en lítið sem ekkert af næringarefnum er líklegt að afleiðingin verði næringarskortur í einhverri mynd eftir ákveðinn tíma. Einkenni næringarskorts eru margvísleg eftir því hvaða næringarefni það eru sem vantar, en næringarlaust mataræði á stóran þátt í ótal kvillum.

Flestir vilja léttast

Það er þarna sem umræðan um hollt mataræði fer að verða flóknari. Flestir sem vilja breyta mataræðinu gera það vegna þess að þeir vilja léttast. Hollustan er gjarnan frekar í orði en á borði í þeim fyrirætlunum og látin mæta afgangi. Auðvitað skiptir hinsvegar miklu að við fáum þau næringarefni sem líkaminn þarf á að halda til þess að halda heilsu til lengri tíma. Hæpið er að ætla að fá vítamín og steinefni úr bætiefnum eingöngu, heldur er vissara að reyna að miða við að borða eitthvað úr öllum fæðuflokkum.

Fæðuflokkarnir eru sex:

  • Kornvörur
  • Grænmeti
  • Ávextir og ber
  • Fiskur, kjöt, egg og baunir
  • Mjólk og mjólkurafurðir
  • Feitmeti

Vandinn við að borða eitthvað úr öllum flokkum fæðuhringsins er að ef það er gert er frekar erfitt að halda sér við mjög fáar hitaeiningar. Auðvitað er ekkert mál að fá gnægð af næringarefnum og borða úr öllum flokkum fæðuhringsins ef ekki þarf að huga að hitaeiningunum. Það að ætla t.d. að halda sig innan við 1800 hitaeiningar og fá samt næg næringarefni og vítamín er vandasamt. Allt er þó hægt og ráðlegt er að þeir sem ætla sér að léttast reyni að breyta til og borða fæðutegundir úr þessum fæðuflokkum. Með því að hafa næringarefnatöflu og vigt á eldhúsborðinu er auðvelt að fylgjast síðan með aðalatriðinu sem er hitaeiningafjöldinn. Einnig er hægt að nota vefinn matarvefurinn.is til að reikna saman næringarefni í mataræðinu.

Einkaþjálfarar láta viðskiptavini sína gjarna skrifa niður allt sem borðað er í nokkra daga. Ef þú gerir slíka tilraun á þér er líklegt að þú komir til með að fá aukna tilfinningu fyrir því hvaða fæðutegundir eru fitandi eða öllu heldur orkuríkar. Þú sérð um að borða matinn sem fer ofan í þig og því ert það þú sem þarft að sjá um að vita hversu mikið af hitaeiningum er í honum. Einkaþjálfarinn gerir það ekki fyrir þig.