Nudd hefur alltaf verið órjúfanlegur þáttur í heilsurækt. Flestar líkamsræktarstöðvar bjóða upp á nudd í einhverju formi og er af ýmsu að taka. Fyrir stuttu fór að bera á nýrri meðferð sem virðist vera að ná vinsældum, en það er höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð. Meðferðarformið á reyndar rætur að rekja 30 ár aftur í tímann, en það er nýlunda hér á landi. Ágúst Axelsson nuddari í Ræktinni á Seltjarnarnesi hefur staðið fyrir námskeiðum í þessari meðferð og lék okkur hjá FF forvitni á að vita í hverju meðferðin felst og var því spjallað við Ágúst.

Meðferðin byggist á því að vinna annars vegar með bandvefskerfið í líkamanum og hins vegar himnum sem liggja utan um miðtaugakerfið (heili og mæna). Kenningin er sú að ef spenna myndast í þessum himnum, annars vegar vegna spennu í bandvefskerfi líkamans eða hinsvegar skekkju í beinum, getur það haft áhrif á starfsemi miðtaugakerfisins og þar af leiðandi valdið röskun hvar sem er í líkamanum.

Þessi meðferð er helst frábrugðin öðrum nuddaðferðum að því leiti að hún er mjög mjúk og fólk er í fötum. Beitt er mest 5 gramma þrýstingi. Það virðist vera að ef meiri þrýstingi sé beitt, þá tekur bandvefurinn ekki við sér. Fylgt er eftir hreyfingum í bandvef og þannig losað um spennu. Meðferðin er mjúk, en mjög áhrifarík. Fólk slakar vel á og þó ekki sé beitt meiri þrýstingi en þetta, getur fólk verið eins og lurkum lamið daginn eftir. Algengt er að fólk fari í þessa meðferð vegna erfiðleika í baki. Algengt er að fólk sé með stífan hnakka, háls og herðar. Sem dæmi, þá liggur afltaugin fyrir Trapezius vöðvann beint úr heila og með því að losa um spennu á milli ákveðinna beina í höfðinu, losnar um spennuna sem ertir þessa tilteknu taug. Þannig hefur meðferðin t.d. mjög jákvæð áhrif á króníska vöðvabólgu.