French friesNú einfaldlega liggur fyrir hvaða fæðutegundir fólk sem fitnar er að borða og hvaða fæðutegundir fólk sem grennist er að borða.

Ein stærsta rannsókn sinnar tegundar sem gerð er á vegum Harvard háskólans nær til 120.000 manns og byggist á að kanna fæðuvenjur og líkamsástand þessa hóps á fjögurra ára fresti. Samkvæmt henni er ljóst að lífsstíll til lengri tíma skiptir öllu máli.

Rannsóknin sem hófst árið 1986 hefur sýnt fram á nokkur athyglisverð atriði. Fólk hefur þyngst að jafnaði um 1,5 kg á hverjum fjórum árum síðan rannsóknin hófst.

Fæðutegundir sem einkenna mataræði þess fólks sem þyngist jafnt og þétt eru kartöfluflögur (0,8 kg), franskar kartöflur (0,7 kg), sykraðir drykkir (0,5 kg) og unnar kjötvörur (0,5 kg).

Fæðutegundir sem einkenna mataræði þess fólks sem léttist eða viðheldur þyngd til lengri tíma er grænmeti (-0,1 kg), kornmeti (-0,2 kg), ávextir (-0,3 kg), hnetur (-0,3 kg) og jógúrt (-0,4 kg).

Auknar æfingar og hreyfing stuðluðu að jafnaði að 0,9 kg léttingu á hverjum fjórum árum en sjónvarpsáhorf jók þynginguna um 0,15 kg fyrir hvern klukkutíma á dag.

Miðað við niðurstöður þessarar risastóru rannsóknar er besta leiðin til að léttast og viðhalda ákjósanlegri þyngd til lengri tíma að borða jógúrt, hnetur, ávexti og kornmeti og hreyfa sig eða æfa meira. Einnig ætti að draga verulega úr neyslu á kartöfluflögum, frönskum kartöflum, sykruðum drykkjum og rauðu kjöti.

(New England Journal of Medicine 364: 2392-2404, 2011)