man and an empty fridgeTil þess að léttast þarf hitaeiningaskortur líkamans á sólarhring að vera um 300 hitaeiningar. Það þarf því að borða um 300 hitaeiningum minna á dag en líkaminn brennir. Margir eiga erfitt með að skilja hvað í þessu felst og sömuleiðis eiga margir erfitt með að viðhalda þessum mismun á eyðslu og neyslu hitaeininga og því þyngjast margir fljótlega aftur. Samkvæmt rannsókn sem gerð var við Háskólann í Illinois í Chicago undir stjórn Krista Varadi kom í ljós að fólk léttist verulega með því að fasta annan hvern dag. Fastan var þó ekki ströng þar sem hún fólst í því að borða 25% af orkuþörf líkamans þá daga sem fastað var. Allir sem tóku þátt í rannsókninni léttust. Engu skipti hvort þeir voru fyrir offeitir eða grannir. Eftir 12 vikur þar sem fastað var annan hvern dag höfðu flestir lést um 6 kíló, fitumassinn hafði minnkað um 4 kíló og hreinn vöðvamassi hafði lítið sem ekkert breyst.
Áhættuþættir gagnvart hjartasjúkdómum höfðu sömuleiðis minnkað, þar á meðal þríglyseríð, lágþéttnikólesteról (vonda kólesterólið) og ákveðin C-viðbragðsprótín sem gefa til kynna bólgur í líkamanum. Með því að fasta annan hvern dag er fyrirhöfninni dreift yfir vikuna sem getur reynst léttara fyrir suma en eitt er víst og það er að þessi aðferð virkaði vel, enda er einfaldlega lögmál að menn léttast ef þeir borða færri hitaeiningar en þeir brenna.
(Nutrition Journal, 12: 146, 2013)