Kaffi og orkudrykkirSala á orkudrykkjum nálgast nýjar hæðir ár frá ári og ekki sér fyrir endann á neyslu þessara vafasömu drykkja.

Hver kynslóð hefur sinn djöful að draga. Kynslóðin sem komin er á og yfir miðjan aldur vandist því að drekka kaffi þegar sparka þurfti í athyglina og halda sér gangandi. Yngri kynslóðin í dag sækir sömuleiðis í koffínið í kaffi – en nú frekar í formi orkudrykkja sem ekki eru endilega eins saklausir og kaffið eitt og sér.

Aðal-innihaldið í orkudrykkjunum, sama hvaða nafni þeir nefnast er oftast koffín, taurine og mikið af sírópi úr maíssterkju. Samkvæmt rannsókn sem gerð var í Kólumbíu var ekki hægt að mæla neinn mun á árangri íþróttamanna þegar þeir notuðu orkudrykki sem voru svipaðir á bragðið, en voru ýmist með bara koffíni (80 mg), koffíni og taurini (1000 mg) eða einfaldlega Red Bull orkudrykkur.

Prófað var þol, styrkur, kraftur og samhæfing hreyfinga. Taurine hafði gagnverkandi áhrif þegar því var blandað saman við koffín. Ef þú vilt endilega drekka orkudrykki ættirðu því að sleppa drykkjum sem innihalda taurine fyrir æfingar.

Niðurstöðurnar eru svolítið skondnar í ljósi þess að orkudrykkirnir sem eru einskonar kaffi á sterum gera þegar á heildina litið sem ekkert gagn.

Helst það að allir verða örari en andskotinn og eiga erfitt með svefn.

Rannsóknir á kaffi hafa sýnt að þegar menn hafa vanið sig af kaffi er athygli og árvekni orðin jafn góð eða betri eftir tæpa viku þegar líkaminn hefur vanið sig af því. Sama á væntanlega við um orkudrykkina.

Spyrja má sig því hvort við séum ekki jafn vel sett með drykki sem innihalda einhverja raunverulega næringu eða hreinlega bara hreina vatnið okkar.
(Journal International Society Sports Nutrition, 11:44, 2014)