Undanfarin ár hafa annað slagið sprottið upp kenningar um að offita, hjartasjúkdómar og insúlínviðnám nái sér á strik í kjölfar skyndilegrar og síendurtekinnar hækkunar á blóðsykri. Kolvetni hafa vægast sagt verið máluð svörtum litum sem sökudólgur að baki offitufaraldursins rétt eins og ofneysla og lífstíll hafi ekkert með það að gera. Bækur með þeim skilaboðum að kolvetni og sykur séu uppspretta hins illa seljast í bílförmum og það er í tísku að tala niður kolvetni. Kolvetni og sykur eru hinsvegar orkuefni sem náttúran hefur gefið okkur og eiga heima í mataræðinu eins og hin orkuefnin, prótín og fita.

Í rannsókn sem gerð var við Harvardháskóla á 163 feitum fullorðnum einstaklingum sem borðuðu fjóra mismunandi matseðla sem allir innihéldu mismunandi gerðir kolvetna var ekki hægt að sjá fylgni við blóðsykurstjórnun, blóðfitu né blóðþrýsting. Það að einblína á afmörkuð atriði í mataræðinu sem orsök hins illa er ekki vænlegt til skilnings á vandamálinu. Lífsstíllinn í heild skiptir mestu máli. Æfingar, hreyfing, heildarmagn fæðunnar, svefnvenjur, reykingar og streita eru það sem skapa heildarmyndina. Okkur hættir til að horfa á það sem við erum að borða sem orsök vandans en mættum kannski einbeita okkur betur að því að skoða hversu mikið við erum að borða af öllum fæðutegundum. Ofneysla er vandamál sem lætur sig engu varða hvort um sé að ræða fitu, prótín eða kolvetni.
(Journal American Medical Association, 312: 2531-2541, 2015)