Í kvikmyndum sem framleiddar hafa verið nýverið fyrir unglinga er ekki óalgengt að dissarar með allt niður um sig viti ekki hvert þeir eru að fara, hvaðan þeir koma né hvað þeir eru að gera og þykir töff. Þessari tískubylgju mætti líkja við það þegar tískumódel með heróínútlit þóttu töff í auglýsingum. Í raunveruleikanum er þetta í sjálfu sér ekki fjarstæða miðað við aukaverkanir af Extacyneyslu eða E- töflum eins og þær eru kallaðar.

Dr. Valerie Curran og félagar við Lundúnarháskóla komust að því að neysla á E- töflum veldur minnisleysi og skerðir svæði í heilanum sem stjórnar skapferli, lærdómi og svefni. Ennfremur dregur þetta efni úr hæfileikanum til að einbeita sér, lærdómshæfileikum og veldur jafnframt þunglyndi. Reglulegir neytendur búa við skerta minnishæfileika í tvö og hálft ár eftir að hafa hætt neyslu E taflna. Ennfremur kom í ljós að E- töfluneytendur glötuðu minnishæfileikanum í meira mæli en þeir sem einungis reyktu marijuana eða drukku alkóhól. Minnistap mældist ennfremur einu ári eftir að menn höfðu tekið einungis eina töflu. Þrátt fyrir litla skammta virðist efnið draga úr blóðflæði til heilans í nokkrar vikur. E- töflur eru mjög hættulegar en hafa því miður náð miklum vinsældum og notkun þeirra hefur farið vaxandi undanfarin ár sem sést best í því gríðarlega og sívaxandi magni sem gert er upptækt hjá smyglurum á hverju ári.