Eftirfarandi er úttekt og samantekt á dómaforsendum í vaxtarrækt, fitness kvenna og karla. Samantektin er unnin og þýdd úr reglum Alþjóðasambands líkamsræktarmanna (IFBB). Þetta eru þær forsendur sem dómarar eiga að gefa sér þegar keppnisflokkar í þessum þremur greinum eru metnir.

Grein 93 – Forkeppni: Dómforsendur lotu 1 (tvískipt bikini)

93.1 Mat dómara í lotu 1 (Tvískipt bikini):
 
Lota 1 (Tvískipt bikini) er metin út frá eftirfarandi forsendum:
1. Dómarinn metur fyrst heildrænt íþróttamannslegt útlit keppandans. Mat dómarans tekur tillit til alls líkamans. Matið sem byrjar á að fá heildræna mynd af líkamsbyggingunni þarf að fela í sér mat á hári, andlitsfegurð og íþróttamannslegum vexti vöðvabyggingarinnar ásamt hlutföllum og samræmi líkamsbyggingarinnar, ástandi húðar og áferðar hennar sem og framkomu keppandans sem á að einkennast af öryggi og glæsileika.
 
2. Líkamsbyggingin á að vera metin út frá heildaráferð vöðvabyggingarinnar sem fengin er fyrir tilstuðlan æfinga. Vöðvahóparnir eiga að hafa ávala og þétta áferð með örlítilli fitu. Líkaminn á hvorki að vera of vöðvamikill né of skorinn og á að vera laus við djúp vöðvaskil og/eða þverrákir í vöðvum. Líkamsbygging sem telst of vöðvamikil eða of skorin á að fá lægra mat.
 
3. Mat dómarans á að taka tillit til stinningar og áferðar húðarinnar. Áferð húðarinnar á að vera slétt og heilbrigð á að líta og án appelsínufitu. Andlit, hár og förðun á að undirstrika „heildrænt útlit“ keppandans.
 
4. Mat dómarans á keppandanum á að fela í sér alla framkomu keppandans frá því hann stígur á svið og þar til stigið er af sviði. Ávallt skal keppandinn metinn út frá áherslu á að hann sé „heilbrigður og hraustur“ með íþróttamannslegan vöxt sem birtist í aðlaðandi „heildarpakka“.
 
5. Dómarar eru minntir á að þetta er ekki vaxtarræktarkeppni. Keppendur þurfa að hafa mótaða vöðva, en ekki sömu stærð, þroska og þéttleika eins og sjá má í vaxtarræktarkeppnum. Keppandi sem býr yfir þeim eiginleikum á að fá lægra mat.
 
Grein 97 – Forkeppni: Dómforsendur í lotu 2 (sundbolur)
 
97.1 Mat dómara á lotu 2 (sundbolur):
Lota 2 er metin út frá sömu forsendum og lota 1 (Grein 51). Hinsvegar þarf dómarinn að hafa í huga þá staðreynd að keppandi getur litið öðruvísi út þegar hann er á háum hælum og í sundbol sem hylur magasvæðið heldur en í tvískiptu bikini. Dómarinn þarf því að gæta þess að dæma þessa lotu út frá „fersku“ sjónarmiði og gæta þess að allir keppendur fái sanngjarna dóma sem byggjast á frammistöðu þeirra í þessari lotu.
 
Grein 101 – Úrslit: Dómforsendur í lotu 3 (Tvískipt bikini)
 
101.1 Mat dómara í lotu 3 (Tvískipt bikini)
 
Sömu dómforsendur eru notaðar í þessari lotu og í lotu 1. Hinsvegar þarf dómarinn að hafa í huga að „heildarpakki“ keppandans getur breyst við að klæðast tvískiptu bikini að eigin vali. Dómarar þurfa því að dæma þessa lotu út frá „fersku“ sjónarhorni til þess að allir keppendur fái sanngjarna dóma sem byggjast á frammistöðu þeirra í þessari lotu.

Regla 28 – Forsendur dómara í lotu 1.
28.1. Almennt
Þegar líkamsbygging keppanda er metin af dómara þarf dómarinn að gæta þess að meta líkamsbygginguna á heildrænan hátt. Þegar skyldustöðurnar eru sýndar metur dómarinn fyrst stærstu vöðvahópana. Dómarinn metur að því loknu alla líkamsbygginguna frá höfði og niður. Metin er vöðvabygging, samræmi, vöðvaþéttleiki og þroski.
Mat dómarans sem byrjar frá höfði og niður þarf að taka tillit til höfuðs, háls, axla, brjósts, allra handleggsvöðva, magasvæðis, mittis, læra, fótleggja, kálfa og fóta. Sama gildir um bakstöðurnar. Þá er auk þess horft til bak-, rass- og lærvöðvana að aftan (trapezius, teres og infraspinatus, erector spinae, gluteus) auk kálfa.
Vöðvahóparnir eru metnir í samanburðinum til þess að dómarinn geti metið vöðvaformið, þéttleika og þroska vöðvana. Dómarinn þarf að hafa í huga að líkamsbygging keppandans þarf að vera í samræmdu jafnvægi. Mikilvægi skyldustaðana er seint ofmetið þar sem þær gera dómaranum kleift að meta hvaða keppandi er með bestu bygginguna sem metin er út frá magni vöðvamassa, jafnvægi vöðvabyggingarinnar sem og þroska og þéttleika vöðvamassans. 

28.2 Dómforsendur karlmannslíkamans:
Þegar dómarinn metur heildrænt form líkamans í forkeppninni skiptir samræmi á milli vöðvahópa miklu máli. Dómarinn metur hærra keppendur sem hafa samræmda vel byggða líkamsbyggingu. Dómarinn horfir til góðrar stöðu og íþróttamannslegrar framkomu, réttrar anatómískrar byggingar (beinabygging, breiðar axlir, hár brjóstkassi, beinn hryggur, samræmi mjaðma og fótleggja, fótleggir eru beinir, ekki kringil- eða kiðfættir).
Dómarinn horfir líka til fallegrar húðáferðar. Húðin á helst að vera laus við ör, bletti, bólur eða húðflúr sem IFBB telur vera líkamslýti. Hár á helst að vera snyrtilegt sem og fætur og tær. Þegar dómari á erfitt með að gera upp á milli tveggja eða fleiri keppenda sem eru svipaðir eru þessi upptöldu atriði hér að framan þættir sem hann getur notað til þess að gera upp á milli keppenda. 
Nákvæma lýsingu á skyldustöðunum er að finna í Viðauka 2, 1.1.
 
28.3 Dómforsendur kvenmannslíkamans:
Fyrst og fremst þarf dómarinn að hafa í huga að þetta er keppni í vaxtarrækt kvenna og að markmiðið er að finna fyrirmyndar kvennmannsbyggingu. Þar af leiðandi er lögun líkamans mikilvægust – vöðvamikil, en kvenleg líkamsbygging er það sem leitað er að. Vöðvamassi má hinsvegar ekki vera það ýktur að hann sé til jafns við vöðvamassa karlmanna. Skilgreiningu kvenlegra vöðva má ekki rugla saman við megurð sem afleiðingu of mikillar léttingar. Keppendur eru einnig metnir út frá því hvort þeir beri sig tignarlega á göngu til og frá stað sínum á sviðinu. 
Nákvæma lýsingu á skyldustöðum er að finna í Viðauka 2, 1.2.
 
Regla 32 – Úrslit: Dómforsendur í lotu 2
 32.1 Mat dómara í lotu 2
Sömu dómaraforsendur eru notaðar í þessari lotu og í lotu 1. Hinsvegar þurfa dómarar að hafa í huga að mismunur getur verið á formi keppenda á milli forkeppni og úrslita. Dómarinn þarf því að gæta þess að dæma þessa lotu út frá „fersku“ sjónarmiði og gæta þess að allir keppendur fái sanngjarna dóma sem byggjast á frammistöðu þeirra í þessari lotu.
Regla 35 – Úrslit: Dómforsendur í lotu 3 (Frjáls stöðulota)
35.1 Mat dómara í lotu 3:
Lota 3 er metin út frá eftirfarandi forsendum:
1. Í úrslitunum meta dómararnir hversu vel keppandinn sýnir líkamsbyggingu sína út frá tónlist. Dómararnir horfa til hnökralausrar, listrænnar og vel framkvæmdar lotu sem getur falið í sér fjölda staða, hinsvegar þarf keppandinn að koma skyldustöðunum sjö fyrir í lotunni. Keppandinn þarf líka að hafa stöður í lotunni þar sem hann hikar á milli til þess að sýna vöðvabyggingu líkamans. „Moon“ stöður, eða það að toga í keppnisskýluna til þess að sýna rassvöðva eru bannaðar. Í parakeppnum eru keppendur metnir bæði hvor um sig og sem heild. Metið er sérstaklega hvernig para-keppendur samræma stöður sínar og hvernig þeir hreyfa sig saman.
2. Dómarar eru minntir á að í þessari lotu eru þeir að dæma 50% líkamsbyggingu og 50% framkvæmd lotunnar.
3. Notkun leikmuna er bönnuð.
Grein 50 – Forkeppni: Dómforsendur í lotu 1 (Fjórðungssnúningar og skyldustöður)
50.1 Lota 1 er dæmd út frá eftirfarandi forsendum:
1. Dómarinn byrjar á að meta heildarútlit líkamsbyggingarinnar.
Mat dómarans nær frá höfði og niður á við og heildarmynd líkamans er vegin og metin. Mat dómarans sem byrjar á að meta heildarmyndina tekur tillit til hárs og andlits og íþróttamannslegs vaxtar. Einnig metur dómarinn samræmi í líkamsbyggingu, húðáferð og öryggi í framkomu keppandans á sviði.
2. Á meðan skyldustöðurnar eru sýndar byrjar dómarin á að meta stærstu vöðvahópana. Dómarinn metur allan líkamann, byrjar á höfði og heldur niður og metur þannig hvern líkamshluta. Fyrst metur dómarinn líkamsbyggingu út frá heildrænu sjónarmiði, en metur líka vöðvamasa, samræmi, þroska og þéttni vöðva. 
Mat dómarans sem byrjar frá höfði og niður á við þarf að taka tillit til höfuðs, háls, axla, brjósts, allra handleggsvöðvana, magasvæðis, mittis, læra, fótleggja, kálfa og fóta. Sama gildir um bakstöðurnar. Þá er auk þess horft til bak-, rass- og lærvöðvana að aftan, auk kálfa. Vöðvahóparnir eru metnir hver fyrir sig í þessum samanburði og dómarinn metur lögun og þroska vöðvana en hefur ávallt í huga heildarútlit keppandans sem þarf að vera í samræmi.  Mikilvægi skyldustaðana verður seint ofmetið þar sem dómaranum gefst með þeim tækifæri til að ákvarða hvaða keppandi hafi bestu líkamsbygginguna út frá íþróttamannslegum vexti, vöðvaþéttni og þroska.
3. Líkamsbyggingin á að vera metin út frá heildaráferð vöðvabyggingarinnar sem fengin er fyrir tilstuðlan æfinga. Vöðvahóparnir eiga að hafa ávala og þétta áferð með örlítilli fitu.
4. Mat dómarans á líka að taka tillit til stinningar og áferðar húðarinnar. Húðáferðin á að vera slétt og heilbrigð á að horfa.
5. Mat dómarans á líkamsbyggingu keppandans á að fela í sér að tekið sé tillit til framkomu keppandans frá því hann stígur á svið og þar til hann yfirgefur sviðið.  Ávallt skal keppandinn metinn út frá áherslu á að hann sé „heilbrigður og hraustur“ á að líta, með íþróttamannslegan vöxt sem birtist í aðlaðandi „heildarpakka“.
 
Grein 54 – Úrslit: Dómforsendur í lotu 2
54.1 Mat dómara í lotu 2:
Sömu dómforsendur eru notaðar í þessari lotu og í lotu 1. Hinsvegar þurfa dómarar að hafa í huga að mismunur getur verið á formi keppenda á milli forkeppni og úrslita. Dómarinn þarf því að gæta þess að dæma þessa lotu út frá „fersku“ sjónarmiði og gæta þess að allir keppendur fái sanngjarna dóma sem byggjast á frammistöðu þeirra í þessari lotu.
 
Grein 58 – Úrslit: Dómforsendur í lotu 3 (Frjálsar stöður)
58.1 Lota 3 er dæmd út frá eftirfarandi forsendum:
1. Hver og einn dómari metur frjálsu stöðulotuna út frá því hvernig keppandinn sýnir vöðvabyggingu, þroska vöðvanna, stíl, persónuleika, samhæfingu hreyfinga og heildarframmistöðu. Dómararnir horfa til hnökralausrar, listrænnar og vel framkvæmdrar lotu sem getur falið í sér margar stöður, hinsvegar þarf keppandinn að koma skyldustöðunum sjö fyrir í lotunni. Keppandinn þarf líka að hafa stöður í lotunni þar sem hann hikar á milli til þess að sýna vöðvabyggingu líkamans. „Moon“ stöður, eða það að toga í keppnisskýluna til þess að sýna rassvöðva eru bannaðar.
2. Dómararnir eru minntir á að í þessari lotu eru þeir að dæma 50% líkamsbyggingu og 50% framkvæmd frjálsu lotunnar.
——————
(Útdráttur úr reglum Alþjóðasambands líkamsræktarmanna, mars 2010)

Þessar sömu reglur er að finna í heild á fitness.is á ensku. Keppendur munu eflaust átta sig betur á forsendum dómara með því að lesa þetta í íslenskri þýðingu.

Það er í sjálfu sér ekkert í þessum reglum sem ætti að koma keppendum á óvart þar sem reglurnar hafa ekki breyst svo heitið geti í nokkur ár. Sumum þykir örugglega betra að lesa þetta á íslensku en ensku. Bæði dómurum og keppendum er hinsvegar hollt að lesa þetta öðru hvoru.

Með von um að þetta verði að gagni.
kv. Einar Guðmann