laxmaturKókoshnetuolía er einskonar tískufyrirbæri í dag sem öllu á að bjarga. Reyndar er það svo að það er einkennandi fyrir umræðuna um næringarfræði sem birtist í líkamsræktartímaritum að oftar en ekki er einhver ein fæðutegund eða einn megrunarkúr sem er í sviðsljósinu í ákveðinn tíma.

Fæðutegundir eiga margar sínar kortersfrægð eins við mannfólkið. Núna er það kókoshnetuolía sem er í sviðsljósinu.

Fullyrt er víða í umfjöllun um olíuna að hún stuðli að léttingu, hafi jákvæð áhrif á hjarta- og kransæðakerfið, sé forvörn gegn andlegri hrörnun og að hún vinni gegn ákveðnum bakteríum.

Því miður eru þær rannsóknir sem eiga að staðfesta þessar fullyrðingar mjög takmarkaðar. Kókoshnetuolía inniheldur svonefndar miðlungs-þríglyseríðskeðjur (MCT) sem hafa smávægileg áhrif á léttingu en innihald þeirra í kókoshnetuolíu er mun minna en notað var í þeim rannsóknum sem sýna fram á léttingaráhrif þessara keðja. Það er því ekki líklegt að kókoshnetuolía hafi teljandi áhrif á léttingu. Hún er hinsvegar líkleg til að hafa slæm áhrif á hjarta- og kransæðakerfið vegna áhrifa hennar til hækkunar á vonda lágþéttnikólesterólinu (LDL) sem bendlað er við kransæðasjúkdóma.

Það er ennfremur ekkert sem styður þær fullyrðingar að kókoshnetuolía hafi sérstaklega jákvæð áhrif á heilastarfsemina, dragi úr andlegri hrörnun eða styrki ónæmiskerfið. Líklega má rekja jákvæð áhrif kókoshnetuolíunnar til auglýsingaskrums fremur en vísindarannsókna.
(Nutrition Action Health Letter, 8 desember 2014)