Milljónir manna æfa í æfingastöðvum víðsvegar um heiminn. Æfingakerfi eru misvönduð sem og fagmennska í þjálfun og viðbrögðum við neyðarástandi. Á hverju ári verða dauðsföll í æfingastöðvum sem rekja má til skorts á þjálfun starfsfólks eða þjálfara. Dæmi eru um að íþróttamenn hafi fengið hjartaáfall vegna ofáreynslu og vökvaskorts. Vinsældir æfingakerfa sem byggjast á því að æfa fram að uppgjöf hefur leitt af sér faraldur rákvöðvalýsu (rhabdomyolysis).

Rákvöðvalýsa er ástand í líkamanum sem rekja má til ofáreynslu og stafar af því að vöðvaþræðir brotna niður og niðurbrotsefni berast út í blóðrásina með skelfilegum afleiðingum fyrir nýrun.

Rákvöðvalýsa hefur reynst lífshættulegt ástand í um þriðjungi tilfella en hægt er að komast hjá þessu ástandi með skynsamlegu æfingakerfi. Þeir sem eru í mestri hættu gagnvart rákvöðvalýsu eru þeir sem eru vöðvamiklir, hafa ekki æft lengi en byrja skyndilega að æfa af kappi.  Í kjölfar þess að tilfellum hefur fjölgað hafa æfingastöðvakeðjur víðsvegar um heiminn samið viðbragðsáætlun fyrir starfsfólk og þjálfara sem fá kennslu í viðbrögðum og læra að þekkja einkennin. Æskilegt er að þjálfarar eða starfsmenn æfingastöðva og íþróttafélaga fái kennslu í viðbrögðum við því sem getur komið upp. Ef þjálfað starfsfólk er ekki til staðar ættu æfingastöðvar að semja skriflegar viðbragðsáætlanir sem tilgreina ábyrgð starfsmanna og það hvernig bregðast skuli við ákveðnum aðstæðum sem geta komið upp. Afar æskilegt er að sem flestir sem starfa á æfingastöðvum sæki sömuleiðis reglulega skyndihjálparnámskeið.

(Journal Strength Conditioning Research,

25: 1781, 2011)